Brúum bilið verkefnið sem gengur út á að fjölga verulega leikskólarýmum í borginni kallar á aukinn mannafla í leikskóla Reykjavíkur. Á undanförnum árum hafa fjárframlög til skólamála aukist verulega sem hefur skilað sér í bættu starfsumhverfi fyrir leikskólakennara og annað starfsfólk ásamt aukinni þjónustu til barna á öllum skólastigum. Borgin hefur samþykkt fjölmargar aðgerðir á undanförnum árum til að bæta starfsumhverfi í leikskólum og varið til þess rúmlega 4 milljörðum króna á tímabilinu 2018-2022.
Framkvæmdir við stækkanir og nýbyggingar á leikskólastigi ganga vel en staða ráðninga hefur áhrif á tímasetningar varðandi inntöku barna. Borgarráð samþykkti á fimmtudag að leggja aukið fjármagn, um 20 milljónir króna, til að styðja við ráðningar- og mannauðsmál. Þar munar mestu um aukinn stuðning mannauðsráðgjafa sem munu einbeita sér að stuðningi við stjórnendur leikskóla í ráðningarmálum.
Margar tillögur til skoðunar
Verkefnið er tvíþætt, annars vegar að vekja athygli á störfunum og laða að fleiri umsækjendur. Hins vegar að hlúa að starfsumhverfinu og draga þannig úr starfsmannaveltu. Að einhverju leyti tengist þetta tvennt, þ.e. besta kynningin á störfunum er ánægður starfsmaður sem talar vel um vinnustaðinn sinn í samfélaginu.
Í því tilliti hafa verið til skoðunar ýmsar tillögur að útfærslum, þar á meðal 75.000 kr. launaauki til starfsfólks sem hvetji vini eða ættingja til starfa í leikskólum eins og tíðkast víða erlendis. Nú hefur verið ákveðið að leggja þá tillögu til hliðar en leggja því meiri kraft í að þróa aðrar hugmyndir eins og nýja auglýsingaherferð, efla íslenskukennslu og bæta móttöku nýliða, þróa aðgengilegra umsóknarkerfi, auka greiningarvinnu, efla stuðning við einstaka leikskóla, og samstarf við ráðningastofur og Háskóla Íslands. Þá verður leitað leiða til að hlúa betur að starfsumhverfinu til að draga úr starfsmannaveltu.