Fjölskyldumiðstöð fyrir flóttafólk opnuð í þessum mánuði

Mannréttindi Velferð

Maður frá Úkraínu fær aðstoð í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.

Borgarráð samþykkti í dag að ganga til samninga við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um tímabundna móttöku að minnsta kosti hundrað einstaklinga frá Úkraínu. Þegar hefur Reykjavíkurborg tekið á móti hundrað flóttamönnum þaðan. Samningurinn kemur til viðbótar samningum sem þegar eru í gildi og taka til 800 einstaklinga á hverjum tíma. Með nýja samningnum veitir Reykjavíkurborg því 900 flóttamönnum þjónustu. Auk þess samþykkti borgarráð í dag að setja á fót Fjölskyldumiðstöð fyrir flóttafólk frá Úkraínu.

Búið að tryggja húsnæði fyrir 96 einstaklinga

Á grundvelli samningsins fær flóttafólk frá Úkraínu margvíslega ráðgjöf og stuðning frá Reykjavíkurborg. Boðið verður upp á aðstoð við ýmsa umsýslu eins og að sækja fjárhagsaðstoð, heilbrigðisþjónustu eða annað sem kann að falla til. Því verður jafnframt útvegað húsnæði og hefur fyrsta húsnæðið sem tekið verður til leigu vegna þessa verkefnis þegar verið tryggt. Það er við Vatnsstíg, þar sem eru 44 íbúðir fyrir 96 einstaklinga.

Verið er að móta á hvernig virkniúrræði fyrir börn og fullorðna í hópnum verða útfærð en Reykjavíkurborg mun leitast við að tengja einstaklinga og nærsamfélag, veita þeim upplýsingar um afþreyingu sem stendur til boða í borginni og bjóða upp á túlkaþjónustu þegar við á.

Lögð áheresla á nám í gegnum leik í Fjölskyldumiðstöðinni

Að lokum verður sett á laggirnar Fjölskyldumiðstöð fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri en stefnt er að því að opna hana nú í apríl. Á fundinum í dag samþykkti borgarráð fjárheimild fyrir allt að 20 milljónir króna vegna miðstöðvarinnar, auk kostnaðar við húsnæði. Nokkrir úkraínskumælandi starfsmenn hjá borginni, sem hafa kennaramenntun eða aðra háskólamenntun, færa sig til í starfi og verða í Fjölskyldumiðstöðinni. Þar verður lögð áhersla á nám í gegnum leik. Stutt verður við fjarnám eldri nemenda eftir þörfum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fagnar þeim skrefum sem tekin voru í dag og segir mikilvægt að Reykjavíkurborg taki flóttafólki frá Úkraínu opnum örmum. „Á fyrsta fundi borgarstjórnar eftir að stríð hófst í Úkraínu fordæmdum við harðlega innrásina og lýstum samstöðu og stuðningi við fólkið í Úkraínu. Þá hvöttum við jafnframt ríkisstjórn Íslands til að taka á móti flóttafólki og lýstum yfir vilja til að taka á móti flóttafólki í Reykjavík. Samningurinn sem við gerum nú við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið kemur til viðbótar samningum sem þegar er í gildi okkar á milli og kveða á um þjónustu við 800 manns á hverjum tíma, ýmist fólks sem er að sækja um alþjóðlega vernd eða hefur nýlega fengið alþjóðlega vernd. Við reiknum með að þessir samningar verði stækkaðir í ljósti stöðunnar í Úkraínu. Við viljum vinna að þessu verkefni af metnaði og tökum flóttafólki frá Úkraínu opnum örmum.“