Breytingar á innritun barna í leikskóla

Skóli og frístund

Stafrænt spjall

Nýtt innritunarferli fyrir leikskóla Reykjavíkur er í vinnslu þessa dagana. Um er að ræða umbreytingu á innrituninni þar sem heildarferlið verður skoðað, allt frá úrvinnslu umsókna til miðlunar upplýsinga til forsjáraðila. 

Foreldrar fengnir til hjálpar

Verkefnið er samstarf skóla- og frístundasviðs og þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar, en formlegt upphaf verkefnisins var í september. Markmið verkefnisins er að umbreyta ferli innritunar í leikskóla, allt frá úrvinnslu umsókna til miðlunar upplýsinga til foreldra og forsjáraðila. Verkefnið er unnið út frá aðferðafræði notendamiðaðrar hönnunar, þar sem ferlar eru greindir og rætt er við foreldra og starfsfólk til að skilja betur þeirra upplifun af ferlinu. Víðtækt notendasamráð er þegar hafið. 

Í fyrstu fösum verkefnisins tekur teymið notendaviðtöl við foreldra og forsjáraðila ásamt starfsfólki Reykjavíkurborgar til þess að skilja þeirra upplifun af innritunarferlinu. Áhersla er lögð á að ná til fjölbreytts hóp viðmælanda til að hægt sé að fá heildræna sýn á upplifun ólíkra notenda. Þá verður einnig send út könnun til úrtaks foreldra og forsjáraðila sem hafa nýlega sótt um leikskólapláss.  

Niðurstöðurnar verða svo nýttar áfram til að móta endurbætt rafrænt ferli leikskólainnritunar, einfalda verklag og efla upplýsingagjöf. 

Óskað eftir fleiri foreldrum til þátttöku

Reykjavíkurborg óskar eftir foreldrum og forsjáraðilum í stutt notendaviðtöl fyrir nýtt innritunarferli til að það mæti betur þörfum ólíkra notenda. Við leitum því sérstaklega að fólki með með fjölbreyttan bakgrunn. Undir það falla til dæmis einstæðir foreldrar, foreldrar með fötlun og foreldrar af erlendum uppruna. Ef það ert þú eða einhver sem þú þekkir endilega heyrið í okkur hjá umbreyting(at)reykjavik.is fyrir nánari upplýsingar.