Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í gær að skerpa á vitundarvakningu um loftslagsmál meðal nemenda og starfsfólks í grunnskólum Reykjavíkurborgar.
Verkefnið mun fela í sér fræðslu og fjölbreytta verkefnavinnu nemenda undir stjórn kennara. Það verður gert með því að þróa nýtt námsefni og miðla gögnum um kolefnisfótspor grunnskóla borgarinnar auk aðgerða til að draga úr kolefnislosun í samræmi við aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum og markmið borgarinnar um að verða kolefnishlutlaus borg 2040. Áhersla verður lögð á skemmtilega og auðskiljanlega framsetningu efnisins.
Samstarfsaðilar Reykjavíkurborgar í verkefninu verða Klappir-grænar lausnir, Landvernd, Sorpa, Faxaflóahafnir, grunnskólar í Ljubljana höfuðborg Slóveníu og slóvenski mælaframleiðandinn Iskraemeco. Þá standa yfir viðræður við fleiri aðila þar með talið einkafyrirtæki og grunnskóla í öðrum sveitarfélögum..
Á sama fundi var samþykkt lítillega breytt tillaga ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða um fræðslu til kennara og starfsfólks grunnskóla um loftslagsmál svo þeir megi nýta þá þekkingu í starfi og kennslu. Í tillögu ungmennanna segir; „Við teljum það mikilvægt að börn og ungmenni fái fræðslu um málaflokkinn og að hann sé innleiddur inn í námsefni á öllum grunnskólastigum. .. Þannig teljum við að hægt sé að tryggja frekari áhuga barna og ungmenna á sjálfbærari og umhverfisvænni framtíð.“
Grænskjár og Græna planið
Veigamikill hluti vitundarvakningarinnar felst í alþjóðlega samstarfsverkefninu Grænskjár (Green Penguin) sem felst í að kortleggja kolefnisfótspor grunnskóla í Reykjavík, Ljubljana og víða og miðla þekkingu og fræðslu um umhverfismál tiltekins skóla fyrir alla til að greina með það í huga að móta tillögur um aðgerðir til að draga úr losun og sóun. Viðmótið sýnir árangur skólans og breytingar milli tímabila. Það gefur einnig grunnskólum tækifæri til að keppa við sjálfa sig og sín á milli um árangur í umhverfismálum.
Vitundarvakningin er í takt við Grænt plan Reykjavíkurborgar og þær áherslum á fræðslu sem þar er að finna og einnig verður unnið í takt við verkefnið Græn skref Reykjavíkurborgar og með hliðsjón af aðferðafræði í loftslagsbókhaldi borgarinnar. Stefnt er að því að hefja undirbúning verkefnisins haustið 2021 og það verði innleidd í grunnskólum Reykjavíkur á árinu 2022. Sett verður á fót verkefnastjórn með fulltrúum þeirra aðila sem standa að verkefninu.
Börn og ungmenni í lykilstöðu
Loftslagsmál eru stærsta áskorun heimsbyggðarinnar um þessar mundir. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og aðgerðir alþjóðasamfélagsins undirstrika mikilvægi þess að aðilar úr ólíkum áttum vinni saman að vandaðri og hreinskiptinni umræðu um loftslagsvandann og hvernig megi mæta honum með samtakamætti og samstarfi ólíkra aðila með mismunandi bakgrunn. Ungt fólk um heim allan er þar engin undantekning og þau hefur gert sig gildandi í umræðunni m.a. með loftslagsverkföllum þar á meðal í Reykjavík. Það getur ráðið úrslitum árangur af baráttunni gegn loftslagsvánni hvort tekst að virkja börn og ungmenni til vitundar um mikilvægi þess að grípa til aðgerða til að draga úr neyslu og sóun, nýta kosti hringrásarhagkerfisins, stuðla að orkuskiptum í stórum stíl, breyta samgönguvenjum og bæta til muna umgengni um náttúru okkar og umhverfi.