Vinnutillögur fyrir nýtt hverfisskipulag í Háaleiti-Bústöðum kynntar

Umhverfi Skipulagsmál

""

Nýtt hverfisskipulag fyrir Háaleiti-Bústaði, borgarhluta 5, er á lokametrunum og voru vinnutillögur kynntar í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar í dag. Þessar tillögur byggja á hugmyndum og ábendingum sem komu frá íbúum í samráði og eiga að gera hverfin í borgarhlutanum betri, vistvænni og meira heilsueflandi. Tillögurnar eru nú kynntar fyrir íbúum og hagsmunaðilum áður en skipulagið verður klárað.

Meðal hugmynda eru úrbætur í samgöngum þar með talið aðgerðir til að draga úr ónæði og mengun frá bílaumferð. Hluti af tillögunum er að leggja áherslu á borgargötur, meðal annars við Bústaðaveg, og styrking hverfiskjarna. Líka eru hugmyndir um heimildir til að bæta við íbúðum, byggja viðbyggingar og bæta aðgengi að lyftulausum fjölbýlishúsum. Einnig eru í tillögum hugmyndir um að efla og styrkja leiksvæði og græn svæði og setja hverfisvernd á athyglisverðar götumyndir eða menningarminjar eins og gömlu hitaveitustokkana sem liggja um borgarhlutann.

Hverfisskipulag auðveldar lífið fyrir íbúa

Hverfisskipulag markar stefnu um þróun og uppbyggingu í grónum hverfum borgarinnar til næstu áratuga. Með hverfisskipulagi er íbúum gert auðveldara að gera breytingar á fasteignum sínum svo byggðin geti þróast í takt við breyttar áherslur í samfélaginu. Með almennum reglum og skilmálum hverfisskipulagsins um yfirbragð byggðar er auðvelt að fá staðfest hvað má og hvað ekki, ólíkt því sem oft hefur verið raunin þegar breyta hefur átt gildandi deiliskipulagi.

Tillögurnar eru í takt við samþykkta stefnu aðalskipulags Reykjavíkur um að uppbygging borgarinnar á næstu árum verði að langmestu leyti innan núverandi þéttbýlismarka og falla að markmiðum hverfisskipulags um sjálfbærari og vistvænni hverfi.

Helstu punktar úr tillögunum

  • Markmið hverfisskipulagsins er að finna lausnir sem auka öryggi og lífsgæði íbúanna og draga úr umferðarmengun og hávaða.
  • Vistvænum ferðamátum verður gert hátt undir höfði við borgargötur og aðgengi allra óháð hreyfigetu tryggt.
  • Tillaga ráðgjafa hverfisskipulagsins er að svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi verði þróunarsvæði þar sem bæði þjónusta og íbúðabyggð verði efld.
  • Hugmyndir eru um að heimila byggingu fjölbýlishúsa á auðum svæðum á þróunarreit við Miklubraut og á horni Miklubrautar og Háaleitisbrautar.
  • Ný byggð er að langmestu leyti innan svæða þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu í aðalskipulagi eða á svæðum sem illa nýtast til útivistar.
  • Lagt er til að hefja gamla hitaveitustokkinn til vegs og virðingar á ný sem hryggjarstykki Bústaðahverfisins og kennileiti sem styrki bæði staðaranda og bæti hverfisvitund og að stokkurinn verði hluti af göngu- og hjólastígakerfi borgarhlutans.
  • Í hverfisskipulaginu er lögð áhersla á græna og vistvæna byggð, í takt við áherslur Reykjavíkurborgar um sjálfbær og vistvæn hverfi. Reynt er að halda í núverandi græn svæði og efla hverfisanda og samfélagsvitund íbúa.
  • Hverfisgarðar geta verið vettvangur fyrir ýmsar uppákomur og staði fyrir list í almenningsrými og skapað ný kennileiti innan hverfanna.
  • Svæðið milli Fellsmúla og Ármúla er skilgreint í vinnutillögum hverfisskipulagsins sem hverfisgarður með viðeigandi grænum innviðum.
  • Í vinnutillögunum er lögð áhersla á aukna borgarskógrækt, bæði innan borgarhlutans og í jöðrum hans.
  • Vistlok búa til græna tengingu milli hverfa og borgarhluta, auka við græn svæði og draga úr loft- og hljóðmengun frá þungri umferð.
  • Vinnutillögur hverfisskipulags gera ráð fyrir að hverfissundlaug verði reist miðsvæðis í Fossvogsdal, nálægt Fossvogsskóla og Snælandsskóla, í samræmi við fyrirliggjandi viljayfirlýsingu Reykjavíkur og Kópavogs sem samþykkt var í báðum sveitarfélögunum í mars 2021
  • Hugmyndir eru um að hefja hverfiskjarna í borgarhlutanum til vegs og virðingar og auka verslun og þjónustu í göngufæri fyrir sem flesta íbúa.

Sérstakur kynningarvefur, sýning og hverfisgöngur

Til að kynna sér tillögurnar verður sýning í Austurveri frá 14. október til 20. október.  Þar verður hægt að skoða tillögurnar og ræða við sérfræðinga um hverfisskipulagið. Einnig verður boðið upp á gönguferðir um hverfin þar sem sérfræðingar og ráðgjafar hverfiskipulagsins fara yfir tillögurnar. Þessar hverfisgöngur verða auglýstar sérstaklega.

Einnig kemur hverfisskipulagið mikið við sögu á íbúafundi borgarstjóra í Réttarholtsskóla fimmtudagskvöldið 14. október.

Íbúar og hagsmunaaðilar eru hvattir til þess að kynna sér tillögunar og segja álit sitt á þeim.  Opið verður fyrir ábendingar og athugasemdir í fjórar vikur fram til 12. nóvember. Ábendingar og athugasemdir má senda á skipulag@reykjavik.is merkt Hverfisskipulag Háaleiti – Bústaðir.

Sérstakur kynningarvefur þar sem er hægt að nálgast tillögurnar hefur verið opnaður á vefnum skipulag.reykjavik.is. Þar er hægt að lesa nánar um þessa helstu punkta sem taldir eru upp hér að ofan og fleira til auk þess að skoða myndir og skýringarteikningar.

Skoða kynningarvef um vinnutillögur um nýtt hverfisskipulag í Háaleiti-Bústöðum.