Vilt þú hafa áhrif á lýðheilsustefnu borgarinnar?

Velferð

""

Frestur til að senda inn umsagnir um Lýðheilsustefnu Reykjavíkur til ársins 2030 rennur út 16. ágúst.

Vinna við lýðheilsustefnu Reykjavíkur til ársins 2030 hefur staðið yfir á kjörtímabilinu. Lokadrög liggja nú fyrir og verður tillaga að nýrri stefnu lögð fyrir borgarstjórn þegar hún kemur aftur saman í haust. Samráðsferli er nú á lokametrunum og eru borgarbúar og aðrir hagsmunaaðilar hvattir til að kynna sér stefnudrögin og gera við þau athugasemdir. Drögin má nálgast hér og athugasemdir má gera hér á síðunni Betri Reykjavík. Einnig má senda athugasemdir eða fyrirspurnir á netfangið lydheilsa@reykjavik.is. Frestur til að senda inn umsagnir rennur út á mánudaginn, þann 16. ágúst.

Kjarninn í stefnu Reykjavíkur á sviði lýðheilsu er að fjölga æviárum þar sem íbúar búa við góða heilsu og vellíðan. Hún hefur það markmið að skapa umhverfi og aðstæður sem auka jöfnuð, heilsu og hamingju þannig að allir borgarbúar hafi tækifæri á að njóta lífsins í borg þar sem þeim finnst gott að búa.

Stefnan styður við markmið Græna plansins sem er sóknaráætlun Reykjavíkurborgar til 2030 í því augnamiði að borgin verði efnahagslega, umhverfislega og félagslega sjálfbær. Framtíðarsýn stefnunnar er að Reykjavík sé heilsueflandi, sjálfbært og fjölskrúðugt borgarsamfélag sem stuðlar að öryggi, jöfnuði, virkri þátttöku og vellíðan allra.