Úthlutun leikskólaplássa hefst 16. mars

Skóli og frístund

""

Þann 16. mars hefst innritun í leikskóla borgarinnar fyrir haustið þegar elstu leikskólabörnin byrja í grunnskóla.

Við úthlutun plássa í 63 leikskóla borgarinnar verður byrjað á börnum sem fædd eru í febrúar 2020 eða fyrr, þ.e. börnum sem verða orðin 18 mánaða þann 1. september n.k., ásamt yngri börnum sem njóta forgangs.

Tekið er tillit til óska foreldra um leikskóla og eru börnin innrituð eftir aldursröð og kennitölu, þau elstu fyrst. Barnafjöldi er mismikill í hverfum borgarinnar og því þarf stundum að bjóða foreldrum dvöl í öðrum leikskóla en þeir hefðu helst kosið. 

Þegar öllum börnum sem fædd eru í febrúar 2020 eða fyrr hefur verið boðin leikskóladvöl verður yngri börnum boðin þau pláss sem enn eru laus.

Athygli foreldra er vakin á því að eftir að úthlutun leikskólaplássa hefst þann 16. mars er unnið með umsóknir eins og þær líta út þann dag áður en nýjar umsóknir raðast inn á biðlista. Þess vegna er æskilegt að allar umsóknir og breytingar á eldri umsóknum, s.s. um flutning á milli leikskóla, berist fyrir mánudaginn 15. mars.

Við bendum foreldrum/forsjáraðilum á að skoða vel umsóknir barna sinna inni á  Vala leikskóli til að tryggja að val um leikskóla sé rétt skráð.

Sjá bréf til foreldra sem sótt hafa um leikskólavist – á íslensku, ensku og pólsku