Nú er vinna við hverfisskipulag fyrir Háaleiti og Bústaði í fullum gangi. Af því tilefni bjóðum við íbúum og hagsmunaaðilum á svæðinu til sérstaks upplýsingafundar í samkomusal Réttarholtsskóla fimmtudaginn 21. október kl. 19.30. Einnig verður boðið upp á gönguferðir um hverfin þar sem sérfræðingar og ráðgjafar hverfiskipulagsins fara yfir tillögurnar.
Ljósmynd/ Úr hverfisgöngu Háaleiti - Múlar 18. október
Á fundinum mun fundargestum gefast færi á að kynna sér tillögurnar, ræða við sérfræðinga Reykjavíkurborgar og skipulagsráðgjafa og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum.
Sagt verður frá hugmyndum um uppbyggingu í hverfunum og hvernig hverfisskipulagið muni geta haft áhrif á þróun þeirra til framtíðar. Hægt er að kynna sér vinnutillögurnar á fundinum og á kynningarvef fyrir vinnutillögurnar.
Tillögurnar byggja á hugmyndum og ábendingum sem komu frá íbúum í samráði og eiga að gera hverfin í borgarhlutanum betri, vistvænni og meira heilsueflandi.
Boðið verður upp á kaffi og meðlæti. Verið öll velkomin! Áður en fundurinn hefst er boðið upp á hverfisgöngu en hún verður sú þriðja í vikunni.
Facebook viðburður um fundinn.
Ábendingar og athugasemdir
Íbúar og hagsmunaaðilar eru hvattir til þess að kynna sér tillögunar og segja álit sitt á þeim. Opið verður fyrir ábendingar og athugasemdir í fjórar vikur fram til 12. nóvember. Ábendingar og athugasemdir má senda á skipulag@reykjavik.is merkt Hverfisskipulag Háaleiti – Bústaðir.
Sérstakur kynningarvefur þar sem er hægt að nálgast tillögurnar hefur verið opnaður á vefnum skipulag.reykjavik.is. Þar er hægt að lesa sér til um tillögurnar og skoða myndir og skýringarteikningar.
Skoða kynningarvef um vinnutillögur um nýtt hverfisskipulag í Háaleiti-Bústöðum.
Helstu punktar úr tillögunum
- Markmið hverfisskipulagsins er að finna lausnir sem auka öryggi og lífsgæði íbúanna og draga úr umferðarmengun og hávaða.
- Vistvænum ferðamátum verður gert hátt undir höfði við borgargötur og aðgengi allra óháð hreyfigetu tryggt.
- Tillaga ráðgjafa hverfisskipulagsins er að svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi verði þróunarsvæði þar sem bæði þjónusta og íbúðabyggð verði efld.
- Hugmyndir eru um að heimila byggingu fjölbýlishúsa á auðum svæðum á þróunarreit við Miklubraut og á horni Miklubrautar og Háaleitisbrautar.
- Ný byggð er að langmestu leyti innan svæða þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu í aðalskipulagi eða á svæðum sem illa nýtast til útivistar.
- Lagt er til að hefja gamla hitaveitustokkinn til vegs og virðingar á ný sem hryggjarstykki Bústaðahverfisins og kennileiti sem styrki bæði staðaranda og bæti hverfisvitund og að stokkurinn verði hluti af göngu- og hjólastígakerfi borgarhlutans.
- Í hverfisskipulaginu er lögð áhersla á græna og vistvæna byggð, í takt við áherslur Reykjavíkurborgar um sjálfbær og vistvæn hverfi. Reynt er að halda í núverandi græn svæði og efla hverfisanda og samfélagsvitund íbúa.
- Hverfisgarðar geta verið vettvangur fyrir ýmsar uppákomur og staði fyrir list í almenningsrými og skapað ný kennileiti innan hverfanna.
- Svæðið milli Fellsmúla og Ármúla er skilgreint í vinnutillögum hverfisskipulagsins sem hverfisgarður með viðeigandi grænum innviðum.
- Í vinnutillögunum er lögð áhersla á aukna borgarskógrækt, bæði innan borgarhlutans og í jöðrum hans.
- Vistlok búa til græna tengingu milli hverfa og borgarhluta, auka við græn svæði og draga úr loft- og hljóðmengun frá þungri umferð.
- Vinnutillögur hverfisskipulags gera ráð fyrir að hverfissundlaug verði reist miðsvæðis í Fossvogsdal, nálægt Fossvogsskóla og Snælandsskóla, í samræmi við fyrirliggjandi viljayfirlýsingu Reykjavíkur og Kópavogs sem samþykkt var í báðum sveitarfélögunum í mars 2021
- Hugmyndir eru um að hefja hverfiskjarna í borgarhlutanum til vegs og virðingar og auka verslun og þjónustu í göngufæri fyrir sem flesta íbúa.
Nánari upplýsingar um hverfisgöngurnar
Bústaðir – Fossvogur 21. október