Umfangsmiklar framkvæmdir við Fossvogsskóla boðnar út

Skóli og frístund

""

Frumkostnaðaráætlun vegna umfangsmikilla framkvæmda sem framundan eru við Fossvogsskóla nemur rúmlega 1.6 ma. króna. Bæði er um að ræða endurbætur á innivist og uppfærslu á húsnæði að nútímakröfum um kennslu og öryggi. Áætlað er að allir nemendur stundi nám í Fossvogsdal frá og með haustinu 2022.

Borgarráð samþykkti í dag að veita umhverfis- og skipulagssviði heimild til útboðs á lagfæringum og endurbótum á Fossvogsskóla. Framkvæmdirnar ná til þess húsnæðis sem fjallað er um í úttektarskýrslu verkfræðistofunnar Eflu frá 14. júní s.l. Frumkostnaðaráætlun Eflu er 1.641 milljón króna á verðlagi október 2021.
 
Útboð verður á stýriverktöku þar sem einn aðalverktaki sér um stjórnun vinnustaðar auk samræmingar og stýringu á vinnu undirverktaka.
 
Framkvæmdirnar eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða aðgerðir til að bæta innivist m.a. bætt raka- og loftgæði. Hins vegar er um að ræða aðgerðir til að færa húsnæðið í nútímalegt horf bæði hvað varðar byggingatækni og kennsluhætti.
 
Einangrun innan á útveggjum allra bygginga verður fjarlægð. Þá verða útveggir einangraðir að utan og klæddir með álklæðningu. Allir gluggar og útihurðir verða endurnýjaðar og lokið við að endurnýja öll þök. Ennfremur verða innveggir fjarlægðir og endurbyggðir í samræmi við gildandi eldvarnarkröfur, raflagnir og pípulagnir verða endurnýjaðar sem og loftaefni og gólfefni. Loftræsting allra húsa verður yfirfarin og virkni breytt með tilliti til bættrar innivistar. Þá verða skriðkjallarar undir byggingunum lagfærðir og þéttir og brunnar sem nú eru inni í byggingunum færðir út úr húsum. Þá er unnið að breyttu innra skipulagi á húsnæðinu svo byggingarnar henti betur fyrir nútíma kennsluhætti. 
 
Framkvæmdir byggjast á þeim tillögum að aðgerðum sem settar eru fram í úttektarskýrslu verkfræðistofunnar Eflu. Fagteymi vegna þeirra aðgerða sem snúa að innivist er skipað fulltrúum frá umhverfis- og skipulagssviði, Eflu og Verkís. Sérstakur ráðgjafi fagteymisins er Björn Marteinsson arkitekt og verkfræðingur. Arkitekt er Helga Gunnarsdóttir í samstarfi við Hornsteina arkitekta ehf. Verkefnastýring er á höndum umhverfis- og skipulagssviðs. Eftirlit framkvæmda vegna innivistar annast Efla verkfræðistofa.
 
Áætlað er að allt skólastarf Fossvogsskóla verði í Fossvogsdal haustið 2022. Börn munu þá stunda nám í tveimur uppgerðum byggingum, Austurlandi og Vesturlandi, og að hluta til einnig í einingarhúsum á lóð skólans. Áætlað er að framkvæmdum við Meginland ljúki haustið 2023.