Þrír nýir og öflugir framkvæmdastjórar þjónustumiðstöðva

Velferð Stjórnsýsla

""

Gengið hefur verið frá ráðningu þriggja framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðva í Reykjavík. Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir verður framkvæmdastjóri nýrrar og sameinaðrar þjónustumiðstöðvar Árbæjar, Grafarholts, Grafarvogs og Kjalarness. Styrmir Erlingsson verður framkvæmdastjóri nýrrar rafrænnar þjónustumiðstöðvar og þá stýrir Kristinn Jakob Reimarsson Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. 

Stöðurnar þrjár voru auglýstar 14. ágúst og var umsóknafrestur til 30. ágúst. Umsækjendur um störfin voru 39 talsins. Ráðningar framkvæmdastjóranna eru hluti af umfangsmiklum skipulagsbreytingum á velferðarsviði sem tengjast nýsamþykktri velferðarstefnu Reykjavíkurborgar, lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn í öllum borgarhlutum. Leitað var öflugra leiðtoga til að leiða þær breytingar sem framundan eru.

Þjónustumiðstöð Árbæjar, Grafarholts, Grafarvogs og Kjalarness

Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Miðgarðs, þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri nýrrar og sameinaðrar þjónustumiðstöðvar Árbæjar, Grafarholts, Grafarvogs og Kjalarness. Ingibjörg er leikskólakennari með MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu ásamt því að vera með diplóma í stjórnun leikskóla. Ingibjörg hefur umfangsmikla reynslu af stjórnun og rekstri ásamt því að hafa yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af velferðarþjónustu. Hún hefur unnið sem framkvæmdastjóri á þjónustumiðstöð velferðarsviðs í rúmlega tuttugu ár. Þar áður var hún leikskólastjóri til margra ára. 

Nýja þjónustumiðstöðin tekur til starfa um áramótin. Hún sinnir hverfum sem telja um 38 þúsund íbúa og þrjátíu starfsstöðvar velferðarsviðs heyra undir hana. 

Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis

Kristinn Jakob Reimarsson, sviðsstjóri samfélagssviðs hjá Akureyrarbæ hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háleitis. Hann er íþróttakennari að mennt frá Íþróttakennaraskóla Íslands og lauk  framhaldsnámi í Íþróttaháskólanum í Osló. Þá er hann með diplóma í rekstrar- og viðskiptafræði. Kristinn hefur umfangsmikla stjórnunar- og rekstrarreynslu sem sviðsstjóri samfélagssviðs en undir sviðið heyra menningar- og markaðsmál, forvarna- og frístundamál auk jafnréttis- og mannréttindamála og stuðningsþjónustu við fatlað fólk. Kristinn hefur jafnframt verið stjórnandi til fjölda ára með ábyrgð á forvarna-, frístunda-, menningar- og markaðsmálum í Fjallabyggð, Grindarvíkurbæ og hjá Reykjavíkurborg.

Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis þjónustar um 33 þúsund íbúa og er til húsa í Efstaleiti. Þrjátíu starfsstöðvar velferðarsviðs í Laugardal, Háaleiti, Bústaðahverfi og Fossvogi heyra undir hana. 

Ný rafræn þjónustumiðstöð

Styrmir Erlingsson, stafrænn leiðtogi velferðarsviðs, hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri nýrrar rafrænnar þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs. Styrmir er með MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu ásamt BA-gráðu í stjórnmálafræði. Styrmir hefur starfað sem stafrænn leiðtogi, verkefnastjóri og ráðgjafi á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, á skrifstofu velferðarsviðs og á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á velferðarþjónustu í gegnum störf sín auk þess að hafa mjög góða þekkingu á notendamiðaðri hönnun, innleiðingu nýrrar tækni og stafrænna lausna.  

Rafræna þjónustumiðstöðin tekur til starfa um áramót og stefnt er að því að íbúar geti sótt um alla þjónustu velferðarsviðs í gegnum stafræna gátt hennar. Jafnframt verði þar veitt símaráðgjöf og leiðbeiningar varðandi einstaka málaflokka.