Í dag voru veitt verðlaun í Töku 2021, stuttmyndasamkeppni grunnskólanna, en að þessu sinni voru einungis veitt verðlaun í unglingaflokki.
Kvikmyndahátíðin Taka hefur verið haldin á hverju vori í 40 ár og jafnan veitt verðlaun í tveimur aldursflokkum í flokki heimildarmynda, leikinna stuttmynda og hreyfimynda. Að þessu sinni var annar háttur hafður á enda hefur margt sett strik í reikning ungra kvikmyndagerðarmanna á liðnum vetri. Verðlaunin komu að þessu sinni í hlut unglinga í þremur skólum fyrir leiknar stuttmyndir.
Fyrstu verðlaun fengu fjórir nemendur í 9. bekk í Laugalækjarskóla; Adam, Kári, Orri og Rommel, fyrir myndina Mjólk. Hún fjallar um hið þekkta vandamál þegar ekki er til mjólk út á morgunmatinn. Ungur drengur tekst á við vandann með því að leggja af stað í leiðangur til að afla mjólkur og mætir ýmsu mótlæti en finnur lausn á óvæntum stað. Í umsögn dómnefndar segir að myndin sé vel skipulögð og tökurnar hörkugóðar.
Í öðru sæti var myndin Litla leyndarmálið sem fjórar stúlkur í unglingadeild Háteigsskóla gerðu, þær Árelía Mist, Ísabella Lind, Anna Valgerður og Amphalika.
Í þriðja sæti varð svo myndin Týndar sem sex stúlkur í 8. og 9. bekk í Dalskóla gerðu, þær Eva Þóra Hauksdóttir,Heiðrún Hjaltadótir, Matthildur Lóa Baldursdóttir, Sandra Hlín Björnsdóttir, Þuríður Yngvadóttir og Þyrí Ágústdóttir.
Kvikmyndakeppnin Taka fer fram á vegum Mixtúru, upplýsinga og tæknivers skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.