Þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar er að hefja átaksverkefni í teikningaskönnun.
Mikil eftirspurn er eftir ýmis konar verkteikningum sem til eru hjá borginni á pappír, og til mikilla hagsbóta er fyrir notendur að koma þeim á rafrænt form. Almenningur og fagaðilar svo og borgarstofnanir og aðrir hagsmunaaðilar leita mikið í teikningasafn borgarinnar sem vistað er í skjalasöfnum. Milljónir teikninga hafa ekki verið skannaðar og þar með færðar í stafrænt form og eru því enn eingöngu aðgengilegar á pappírsformi. Teikningaskönnunin er því brýnt verkefni til að auðvelda aðgengi, spara notendum sporin og tryggja langtíma varðveislu teikninganna. Að skönnun teikninga lokinni verður einungis tekið við teikningum með rafrænum hætti hjá borginni.
Alls konar verkfræðiteikningar verða skannaðar
Þær teikningar sem hér um ræðir eru m.a. verkfræðiteikningar. Undir þær falla burðarþolsteikningar, lagnateikningar, raflagnateikningar frá 2008 og yngri, sérteikningar og málsettar smíðateikningar sem varðveittar eru í skjalageymslu Reykjavíkurborgar á Höfðatorgi. Eftir skönnun verður gengið frá þessum teikningum í viðeigandi umbúðir til að tryggja framtíðarvarðveislu þeirra. Einnig verða raflagnateikningar frá 2007 og eldri sem varðveittar eru í Borgarskjalasafni skannaðar og skráðar og gerðar aðgengilegar á vef Reykjavíkurborgar.
Stafrænt aðgengi tryggir jafnt aðgengi fyrir alla og felur í sér umtalsverða hagræðingu fyrir fagaðila, byggingariðnaðinn og borgina til framtíðar.
Áætlaður heildarkostnaður við verkefnið eru 45 milljónir á ári í þrjú ár. Verkefnið er hluti af stafrænni umbreytingu á þjónustu Reykjavíkurborgar.
Í dag er hægt að nálgast alla aðaluppdrætti af byggingum í Reykjavík á vefnum en aðeins hægt að fá verkteikningar í gegnum þjónustuver borgarinnar.