Starfsemi Hraunbergs, skammtímaheimilis fyrir ungmenni á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, hefur verið flutt vegna myglu sem greindist í húsnæðinu. Heimilið er nú komið í bráðabirgðahúsnæði og er stefnt að flutningi í nýtt varanlegt húsnæði á næstu mánuðum.
Hraunberg er skammtímaheimili ætlað fjórum ungmennum á aldrinum 13–18 ára, sem þurfa tímabundna vistun utan heimilis vegna sérstakra aðstæðna. Í Hraunbergi er bæði skammtímavistun og bráðavistun. Misjafnt er hversu lengi ungmenni dvelja í Hraunbergi og fer það allt eftir aðstæðum hjá hverju barni.
Í upphafi vikunnar bárust niðurstöður úr sýnatöku frá verkfræðistofunni Mannvit um að mygla hafi greinst á nokkrum stöðum í húsinu. Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir að málinu sé tekið mjög alvarlega. Því hafi verið brugðist við með rýmingu á húsnæðinu og flutningi starfseminnar þegar niðurstöður bárust. Heimilið sé nú komið í tímabundið húsnæði, á meðan leit stendur yfir að hentugum stað fyrir starfsemina. „Starfsfólki og börnum sem dvalið hafa í Hraunbergi verður veittur allur sá stuðningur sem þau þurfa á að halda. Það mun mikið mæða á starfsfólki næstu daga og vikur við að koma sér fyrir á nýjum stað og undirbúa jólahald í nýjum og ókunnugum aðstæðum. Við munum gera hvað við getum til að létta undir með þeim í öllu því raski sem fylgir. Starfsfólk Hraunbergs hefur tekið fréttunum af mikilli yfirvegun og við vitum að það mun hvergi láta deigan síga við að tryggja börnunum öruggar og hlýlegar aðstæður – fyrir það kunnum við þeim miklar þakkir,“ segir Katrín.
Á heimilinu búa um þessar mundir þrjú ungmenni. Haft hefur verið samband við þau og foreldra þeirra og málið kynnt. Haldinn hefur verið fundur með starfsfólki og næsta þriðjudag verður upplýsingafundur með sérfræðingum og starfsfólki Hraunbergs. Öllu starfsfólki verður boðið að fá sérstaka læknisskoðun hjá trúnaðarlækni. Unnið er eftir nýjum verkferlum Reykjavíkurborgar vegna rakaskemmda og myglu sem virkjaðir eru um leið og grunur leikur á lélegri innivist í húsnæði á vegum borgarinnar. Um þrjátíu börn hafa dvalið í Hraunbergi á vegum Barnaverndar Reykjavíkur á þessu ári og er nú unnið að því að hafa samband við þau og foreldra þeirra.
Um nokkurt skeið hefur staðið til að flytja starfsemi Hraunbergs í stærra og hentugra húsnæði. Stefnt er að því að flytja í nýtt heimili á næstu mánuðum. Það er því ljóst að starfsemin verður ekki flutt aftur í fyrra húsnæði.