Í dag fór af stað samstarfsverkefni um kortlagningu á fjölda einstaklinga sem búa í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og stjórnarformaður Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Halla Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir aðstoðarforstjóri HMS, kynntu verkefnið á blaðamannafundi í morgun.
English and Polish below.
Í kjölfar brunans við Bræðraborgarstíg í fyrra þar sem þrjú létust var Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) að beiðni félags- og barnamálaráðherra falið að vinna að tillögum til úrbóta á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Í því skyni stofnaði HMS samráðsvettvang sem lagði fram þrettán úrbótatillögur, þar á meðal að kortleggja hversu margir einstaklingar búa í atvinnuhúsnæði, ásamt því að safna upplýsingum um ástand brunavarna og félagslegar aðstæður íbúa sem nú er verið að setja í framkvæmd.
Ákveðið var að hefja þessa vinnu á höfuðborgarsvæðinu og þróa aðferðarfræði sem mun nýtast á landsbyggðinni. „Í þessum áfanga er markmiðið að ná utan um umfangið og fjölda einstaklinga sem búa í atvinnuhúsnæði. Í kjölfarið á þeirri vinnu verður svo skoðað hvaða úrbætur þarf að ráðast í til að skapa öruggari húsnæðisaðstæður fyrir íbúa,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Kortlagningin grundvöllur nauðsynlegra úrbóta
Slökkviliðinu var falið að leiða verkefnið í nánu samstarfi við HMS, Alþýðusamband Íslands og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Áætlað er að kortlagningin muni taka um þrjá mánuði. Í henni felst að hópur eftirlitsfulltrúa heimsækir atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og ræðir við einstaklinga sem þar eru búsettir um ástand brunavarna og félagslegar aðstæður þeirra. Upplýsingar verða ópersónugreinanlegar.
Borgarstjóri segir um afar mikilvægt verkefni að ræða. „Harmleikurinn sem átti sér stað á Bræðraborgarstíg má ekki endurtaka sig og á grundvelli þessarar kortlagningar verður hægt að ráðast í nauðsynlegar úrbætur, með það að markmiði að tryggja örugga búsetu fyrir alla,“ segir hann.
Á vefsíðunni homesafety.is má nálgast frekari upplýsingar um verkefnið, á sex tungumálum.