Öflugri frístundir í Breiðholti

Velferð Skóli og frístund

""

Frístundir í Breiðholti er nýtt tilraunaverkefni sem snýst um að auka þátttöku íbúa hverfisins í íþrótta- tómstundastarfi og auka lýðheilsu í hverfinu.

Að sögn hverfisstjóra Breiðholts, Óskars Dýrmundar Ólafssonar hefur borgarstjóri falið þjónustumiðstöð Breiðholts að stýra verkefninu. Tveir starfsmenn þjónustumiðstöðvarinnar, þau Þráinn Hafsteinsson og Nichole Leigh Mosty sjá um framkvæmdina í samráði við leik- og grunnskóla, frístundamiðstöð, íþrótta- og frístundaðila í hverfinu og íbúana.

Verkefnið hefur þrjú megin markmið sem eru að auka  íþrótta- og frístundaþátttöku barna í Breiðholti, auka nýtingu frístundakortsins til jafns við það sem það er að meðaltali í öðrum hverfum borgarinnar og auðvelda samfélagslega þátttöku, íslenskunotkun og félagslega virkni barna með mismunandi bakgrunn.

Unnið er að því að efla lýðheilsu í öllum hverfum borgarinnar en í Breiðholti er sérstaklega horft til þess að auka þátttöku fólks af erlendum uppruna. Að sögn Óskars er verið mæta þörfum samfélagsins á miklum breytingatímum sem  auknir fólksflutningar á milli landa hafa í för með sér. „Samfélagið í Breiðholti ber augljós merki þessara breytinga og við viljum gera fólki hvaðan sem það kemur kleift að búa í hverfinu og auðvelda því að vera um leið virkir þátttakendur í okkar fjölbreytta samfélagi,“ segir Óskar Dýrmundur. Hann bætir því við að með verkefninu vilji þau ná til nýrra Breiðhyltinga, sér í lagi þeirra barna og unglinga sem ekki taka þegar þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Þráinn Hafsteinsson og Nichole Leigh Mosty, starfsmenn verkefnisins í Breiðholti, segja átakið miða að því að hvetja alla íbúa Breiðholts, unga sem aldna, til að lifa heilsusamlegu lífi með því að hreyfa sig reglulega, borða hollan mat og tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og síðast en ekki síst huga að andlegri líðan.

Frístundum í Breiðholti er ætlað að virkja sem flest börn og ungmenni til þátttöku í íþróttum og frístundum, studd af foreldrum. Með þátttöku sinni í íþróttum og frístundum opnast leið fyrir börnin til að taka meiri þátt í samfélaginu í hverfinu. Með þátttöku styrkja þau líka íslenska málnotkun og mynda frekar félagsleg tengsl við krakka af ólíkum uppruna. Með þátttöku í frístundum verða börnin hluti af stærri og fjölbreyttari vinahópi og eignast stærra tengslanet.

Leita að sendiherrum

Þráinn og Nichole segja  að markmið þeirra sé að byggja upp traust tengsl við ólíka hópa fólks í hverfinu. Þau vilja fá til liðs við sig áhugasamt fólk eða nokkurs konar sendiherra eða tengiliði við mismunandi hópa samfélagsins. Sendiherra verður tengiliður fyrir ákveðinn hóp fólks af svipuðum uppruna og málsvæði. Sendiherrar geta miðlað upplýsingum inn í hópinn, eins og t.d. um möguleika barna til íþrótta- og frístundaþátttöku og notkun frístundakortsins.

Þetta getur líka átt við um aðra þjónustu og möguleika íbúa hverfisins til betra lífs.  „Sendiherrum er ekki síður ætlað að miðla ráðum og tillögum frá sínum samfélagshópi um hvernig við sem störfum í þjónustu Reykjavíkurborgar getum gert samfélagið betra í Breiðholti fyrir alla íbúa þess óháð bakgrunni,“ segir Nichole.   

Þeir sem hafa áhuga á að gerast sendiherrar geta leitað til starfsmanna Þjónustumiðstöðvar Breiðholts sem gefa allar frekari upplýsingar og taka á móti hugmyndum og tillögum frá íbúum.

Að lokum vilja þau Nichole, Óskar Dýrmundur og Þráinn hvetja alla til að vera með í verkefninu Frístundir í Breiðholti. Þau beina því sérstaklega til foreldra, forráðamanna, vina og ættingja að hvetja börn til þátttöku í íþrótta- og frístundastarfi í Breiðholti. Þannig verði til uppbyggilegt og virkt samfélag fyrir alla.

English - Reinforcing leisure activities in Breiðholt

Polska - Zajęcia rekreacyjne w Breiðholt