Rekstur Fab Lab Reykjavík hefur verið tryggður næstu árin í samvinnu Reykjavíkurborgar og ríkisins. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði við undirskriftina að þetta væri ánægjulegur árangur góðar samvinnu, en hann ritaði undir samning ásamt ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra.
Fab Lab er í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og er Dagur ánægður með hvernig starfsemin hefur sprungið út í umsjá FB. „Það hefur stækkað og þroskast. Það hefur opnað sig bæði fyrir grunnskólunum í hverfinu og einnig fyrir fólkinu sem hér býr og reyndar hefur fólk komið hér víða að og þannig hefur tekist að virkja nýsköpunarandann, sem við ætlum að halda áfram að byggja undir og yfir,“ segir Dagur, en það er fyrirætlan borgarinnar í samvinnu við Mennta- og menningarmálaráðuneytið að byggja ný hús við Hraunberg fyrir FB og halda þannig áfram að styðja við skólann sem framsækinn skóla.
Frumkvöðlar og tæknilæsi
Fab Lab verkefninu er ætlað að styðja við þátttöku og áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum og auka tæknilæsi, skapandi starf og frumkvöðlamennt. Markmið Fab Lab Reykjavík er að auka þekkingu og leikni nemenda, kennara, almennings og innan atvinnulífs á persónumiðaðri nýsköpunarvinnu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Einnig á það að vera vettvangur fyrir þróun og prófun hugmynda og efla þannig samkeppnishæfni í nærsamfélagi.
Fab Lab Reykjavík er hluti samstarfsnets Fab Lab smiðja á Íslandi og tengist jafnframt alþjóðaneti Fab Lab smiðja, Fab Foundation við Massachusetts Institute of Technology (MIT). Þeim samstarfsvettvangi er ætlað að tryggja þekkingaryfirfærslu og faglega þróun starfsmanna. Við undirrituna í Breiðholti voru fulltrúar annarra Fab Lab smiðja á Íslandi í fjarfundartengingu og ritað var undir samninga rafrænt.
Mikið gæfuspor fyrir FB
Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari FB rifjaði upp aðdragandann að Fab Lab í Breiðholti. „Það var á Iðnþingi vorið 2010 sem ég heyrði fyrst talað um Fab Lab smiðjur. Þorsteinn Ingi Sigfússon heitinn, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, kynnti Fab Lab hugmyndafræðina í lok dagskrár þingsins og lauk máli sínu með því að beina þeirri hvatningu til þinggesta að stuðla að uppsetningu slíkra smiðja sem víðast og að sérstaklega þyrfti að koma upp Fab Lab smiðju hér á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Guðrún í ávarpi sínu. „Nokkrum árum síðar, eða í janúar 2013, ákveður Jón Gnarr þáverandi borgarstjóri í Reykjavík að flytja skrifstofu sína tímabundið upp í Breiðholt. Dagur B. Eggertsson sem þá var formaður borgarráðs kom á fund okkar ásamt Þorsteini Inga Sigfússyni. Þeir sögðust vilja koma upp Fab Lab smiðju í Breiðholti og buðu okkur til samstarfs um málið. Þetta var mikið gæfuspor fyrir skólann. Í framhaldi hófst uppbyggingarstarfsemi sem hefur verið ævintýri líkust. Mikill metnaður var lagður í starf smiðjunnar frá upphafi. Þorsteinn Ingi var stjórnarformaður fyrstu árin og Bjarni Daníelsson sat í stýrihópi af hálfu borgarinnar. Þessir merku menn, ásamt Óskari Dýrmundi Ólafssyni hverfisstjóra Breiðholts eiga drjúgan þátt í að gera Fab Lab Reykjavík að metnaðarfullum vettvangi nýsköpunar.“
Íbúar koma hugmyndum í framkvæmd
Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri hjá þjónustumiðstöð Breiðholts er ánægður með að Fab Lab Reykjavík sé staðsett í hverfi sem endurspeglar fjölbreytta íbúasamsetningu. „Almenningur hér sem og í öðrum hverfum hefur nýtt sér það vel að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og hafa frumgerðir sem eru tilbúnar í framleiðslu orðið til á vettvangi Fab Lab með stuðningi sérfræðinga þess. Grunnskólar Reykjavíkurborgar hafa geta nýtt sér aðstöðuna með aðstoð sérfræðinga úr Fab Academy og tengt þannig þróun á vettvangi grunnskólanna við starfsemi Fab Lab sem einnig hefur gefið út námsefni fyrir þá. Nýr samstarfssamningur styrkir aðkomu almennings og grunnskólabarna að nýsköpun, hönnun, framleiðslu og skapandi starfi. Þetta nær einnig til nemenda á framhaldsskóla og háskólastigi,“ segir Óskar sem situr í stjórn Fab Lab Reykjavík fyrir hönd borgarinnar.
Fab Lab smiðjur hringinn um landið
Framlag ráðuneytanna til stafrænna smiðja verður alls 84 milljónir kr. á þessu ári. Samkomulagið miðar að því að tengja starf smiðjanna betur við svæðisbundna lykilaðila á sviði menntunar, rannsókna, menningar og atvinnulífs og að tryggja aðgengi að þeim í öllum landshlutum. Þá er rekstrargrundvöllur þeirra styrktur og umgjörð þeirra fest betur í sessi með skýrari aðkomu ráðuneytanna tveggja, sveitarfélaga á hverjum stað og fræðslustofnana.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: „Ég hef óbilandi trú á hugmyndaauðgi og framtakssemi fólks og stafrænu smiðjurnar eru vettvangur þar sem hugmyndir verða að veruleika. Það er mikilvægt að hugarfar nýsköpunar fylgi okkur í gegnum allt skólakerfið, og lífið. Þess vegna er Fab-Lab er frábær vettvangur bæði fyrir nýsköpun og þjálfun fyrir störf framtíðarinnar.“
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra: „Stafrænu smiðjurnar eru mikilvægur hlekkur í nýsköpunar- og menntastarfi og vilji okkar er að þær standi nemendum á öllum skólastigum, almenningi og atvinnulífi opnar. Þar er staður til þess að læra, miðla, finna upp og prófa sig áfram. Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar er mikilvæg lykilhæfni sem samkeppnishæfni okkar til framtíðar grundvallast að stórum hluta á.“