Nýir gervigrasvellir í Laugardal

Skipulagsmál Íþróttir og útivist

""

Tveir nýir gervigrasvellir til knattspyrnuiðkunar verða lagðir á gamla Valbjarnarvellinum í Laugardal samkvæmt nýju deiliskipulagi.

Borgarráð hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi á svæði austan Laugardalsvallar. Breytingin byggir á viljayfirlýsingu sem Knattspyrnufélagið Þróttur, Glímufélagið Ármann og Reykjavíkurborg gerðu í mars síðastliðnum.

Viljayfirlýsinging gerir ráð fyrir að Þróttur afhendi grasæfingasvæði við Suðurlandsbraut og að þar verði þjóðarleikvangur fyrir frjálsar íþróttir með tilheyrandi æfingasvæðum.  Það svæði hefur enn ekki verið skipulagt.  Í staðinn verða gerðir nýir gervigrasvellir austan Laugardalsvallar. Vellirnir verða afgirtir með netgirðingum en áfram er gert ráð fyrir opnum göngu- og skokkleiðum á milli Laugardalsvallar og vallanna. Um er að ræða svæðið þar sem Valbjarnarvöllur var forðum.

Samkvæmt nýja skipulaginu er lóðin nú skilgreind sem knattspyrnuæfingasvæði með tveimur gervigrasvöllum auk núverandi tennisvalla. Lóðina má girða með allt að þriggja metra hárri netgirðingu. Þá er heimilt að reisa níu ljósamöstur við vellina.

Tillagan gerir ráð fyrir að æfingavellirnir verði lagðir með upphituðu gervigrasi í samræmi við alþjóðlega staðla. Á úthornum öryggissvæðis við vellina og milli þeirra eru fyrirhuguð níu ljósamöstur með LED lýsingu, sem uppfylla alþjóðlega staðla til að lýsa upp vellina. Ljósamöstrin verða að hámarki 21 m há frá jörð. Gert er ráð fyrir að æfingalýsing sé 200 lux og eru grenndaráhrif vegna lýsingar talin óveruleg eða engin. Um er að ræða LED lýsingu sem veitir góða afskermingu og er auðvelt að stýra, auk þess sem af þeim er minni sjónmengun en af hefðbundinni flóðlýsingu.

Innan lóðar er byggingarreitur fyrir aðstöðuhús og innan hans er heimilt að byggja allt að 200 fermetra hús.