Reykvíkingar deila borg sinni með ótal lífverum, allt frá álftum til hunangsflugna og birkitrjám til kuðungakrabba. Innan borgarmarkanna finnast mörg sérstæð, verðmæt og viðkvæm vistkerfi, til dæmis leirur og þangfjörur sem eru mikilvæg búsvæði vaðfugla og sjávarhryggleysingja, straumvötn sem hýsa laxa- og silungastofna, mosavaxin hraun, mólendi og lundavörp í eyjum. Dagur íslenskrar náttúru er í dag 16. september.
Af þessu tilefni er vert að minna á bæklinginn Náttúruborgin sem fjallar um stefnu Reykjavíkur um líffræðilega fjölbreytni og gefinn var út á þessum degi fyrir tveimur árum. Enn fremur er hægt er að nálgast bæklinginn í prentútgáfu í þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14.
Líffræðileg fjölbreytni er lífsnauðsynleg fyrir afkomu okkar á jörðinni. Þessi fjölbreytni er undirstaða náttúruauðlinda og mótar lífsgæði og hamingju. Stefna Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni var samþykkt í janúar 2016. Í stefnunni eru skilgreind markmið og lykilverkefni sem miða að því að hlúa að líffræðilegri fjölbreytni en hér má skoða aðgerðaáætlunina.
Í kjölfarið á þessari vinnu hefur borgin sett mikla áherslu á vöktun lífríkis, meðal annars með reglulegum fuglatalningum á vötnum, strandsvæðum og öðrum náttúrusvæðum borgarinnar.
Hið byggða umhverfi er auðugt af lífi og borgarbúar eru í daglegu samneyti við lífverur til dæmis syngjandi garðfugla.
Fjölbreyttar lífverur og búsvæði í Reykjavíkurborg
Hér eru nokkur dæmi en fleiri dæmi má skoða í bæklingnum.
- Við Tjörnina og í friðlandinu í Vatnsmýrinni dvelja að jafnaði um átta andategundir.
- Í Elliðaár gengur bæði lax og urriði og bleikja finnst í Elliðavatni.
- Við Sörlaskjól og Faxaskjól eru beltaskiptar þangfjörur með fjölbreyttu dýralífi, til dæmis burstaormum, krabbadýrum og kuðungum.
- Á Kjalarnesi eru mörg búsvæði fyrir fugla, einkum við ströndina þar mikill fjöldi sjó- og vaðfugla dvelur.
- Hrafnar og rjúpur eru algengir vetrargestir í austurjaðri Reykjavíkur, til dæmis í nágrenni Reynisvatns.
- Í Viðey má sjá fjölbreyttan strandgróður, til dæmis blálilju, fjörukál og hrímblöðku.
- Blikastaðakró og Grafarvogur eru mikilvægar fæðustöðvar farfugla, t.d. margæsar og rauðbrystings.
Viðburður í Grasagarði Reykjavíkur í dag
Finnst ein lausnin á matvælavanda heimsins í gömlum túnum eða hreinlega úti í móa?
Fólk hefur stundað kynbætur á plöntum í 10.000 ár til að bæta bragðgæði jurta og auka uppskeruna. Á sama tíma hefur erfðafjölbreytnin í ræktuðum matjurtum minnkað sem er mikið áhyggjuefni á tímum loftslagsbreytinga.
Magnus Göransson, doktorsnemi í plöntukynbótum, fjallar um villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna og mikilvægi þeirra á degi íslenskrar náttúru. Hann kynnir um leið samnorræna sýningu um þessar plöntur sem var m.a. unnin í samstarfi við NordGen og Erfðanefnd landbúnaðarins. Sýningin verður í Grasagarðinum til loka september.
Fræðslugangan hefst við aðalinngang Grasagarðsins fimmtudaginn 16. september kl. 17. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.
Meiri upplýsingar og viðburður á Facebook