Misjafnt hvernig fólk bregst við þegar barnavernd bankar uppá

Velferð

""

Katrín Helga Hallgrímsdóttir er framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur. Hún er reynslumikill lögfræðingur sem hóf störf hjá Barnavernd árið 2019. Katrín tók örlitla beygju á starfsferlinum þegar hún byrjaði hjá Barnavernd en áður hafði hún meðal annars rekið lögfræðistofu, setið í stjórnum fyrirtækja og stofnunum og upplifað bæði útrás og hrun í fjármálageiranum.

„Það er misjafnt hvernig fólk bregst við þegar Barnavernd bankar uppá. Oftast er það einhver á heimilinu sem hefur hringt og kallað eftir þjónustu. Það er sjaldnast að það sé einhver úr næsta húsi sem kallar eftir þjónustu og við mætum, öllum að óvörum. Sumir fara í vörn og verða óöruggir á meðan aðrir vita að það er vandi og að þeir þurfa hjálp. 

Covid hafði mikil áhrif á Barnavernd. Auðvitað var hjá öllum og í allri starfsemi óöryggi þegar þetta var að byrja. Eðli málsins samkvæmt voru margir sem misstu tökin, kannski fólk sem má ekki við miklu og er í viðkvæmum aðstæðum.

Það jukust allverulega tilkynningar til okkar, milli áranna 2019 og 2020. Við sáum strax á fyrstu mánuðum 2020 að þetta myndi fara svona og horfðum til þess sem gerðist í kringum hrunið, þegar mikið atvinnuleysi var og efnahagssamdráttur. Það gekk eftir - fjölgun í tilkynningum fylgir auknu atvinnuleysi og versnandi aðstæðum fólks í landinu. Við kölluðum strax eftir því að það þyrfti að bregðast við þessu og  fengum tíu stöðugildi til þess.Það skipti gríðarlega miklu máli. 

Okkar markmið er að aðstæður barna heima séu viðunandi. Það er misjafnt hvaða aðstoð fólk þarf til þess og hver vandinn er en þá er barnavernd tilbúin að reyna að koma málum í réttan farveg. Það er algjört örþrifaráð og síðasta úrræði að taka börn af heimilinu og sem betur fer gerist það í fæstum tilvikum. Í flestum tilvikum er fólk til samvinnu um það sem þarf að gera.“

Katrín var viðmælandi Veltunnar, hlaðvarps velferðarsviðs, á dögunum.