Sterkar líkur eru á svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2022 vegna mengunar frá flugeldum og búast má við því að styrkurinn verði yfir heilsuverndarmörkum. Líkur eru á því að styrkurinn verði áfram hár fram eftir degi á nýársdag ef það verður hæglætisveður.
Svifryksmengun vegna flugelda er bæði varasöm og heilsuspillandi en á undanförnum árum hafa verið flutt inn um 600 tonn af skoteldum á hverju ári. Árið í ár er engin undantekning en fyrir þessi áramót hafa verið flutt inn til landsins tæplega 640 tonn af skoteldum en þar af er púðurmagnið um 56 tonn.
Höfundar skýrslunnar Mengun af völdum skotelda skrifa „Starfshópurinn var sammála um að sú mengun sem oft verður um áramótin af völdum skotelda hefur óæskileg áhrif á heilsu margra einstaklinga, sérstaklega þeirra sem eru með undirliggjandi heilsufarsvandamál.“
Sýnum aðgát og hugum að börnum og dýrum
Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að sýna aðgát og huga að börnum og dýrum ásamt því að ganga rétt frá flugeldarusli. Hægt er að draga úr fjölda flugelda með því að kaupa rótarskot Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Rótarskotið er ágætur valkostur fyrir þá sem vilja styrkja starf björgunarsveitanna án þess að kaupa flugelda. Fyrir rótarskotin gróðursetur skógræktarfélagið trjáplöntur um land allt næsta sumar sem stuðlar að betri loftgæðum og dregur úr gróðurhúsaáhrifum.
Hávaði vegna flugelda verður oft mikill, sérstaklega frá stórum skotkökum og því eru gæludýraeigendur í borginni hvattir til að huga vel að dýrum sínum. Best er að halda köttum inni dagana í kringum áramót og hafa hunda ávallt í ól þegar þeim er hleypt út, þó það sé aðeins út í garð.
Fylgjumst með veðurspá
Veðurspáin er óljós eins og er en ef það verður hæglætisverður eru auknar líkur á slæmum loftgæðum. Hægt er að fylgjast með veðurspánni á Vedur.is.
Fyrsti svifryksdagur ársins
Miðað við undanfarin ár gæti 1. janúar 2021 orðið fyrsti svifryksdagur ársins vegna mengunar frá skoteldum. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á loftgæði.is
Loftgæðamælistöðvar sem mæla svifryk í Reykjavík eru staðsettar við Grensásveg, í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, við Bústaðarveg/Háaleitisbraut og við Vesturbæjarlaug.
Fólk með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma og börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki. Æskilegast er fyrir þennan hóp að vera innandyra þegar mest gengur á í kringum um miðnættið og loka gluggum.
Gleðilegt nýtt hreint ár
Eftir áramótin má oft finna flugeldarusl víða um borg. Mikilvægt er að koma þessu rusli á sinn stað áður en það brotnar niður og verður að drullu. Þó svo að flugeldar séu úr pappa, þá er notaður leir í botninn sem gerir það að verkum að pappinn sem eftir verður er ekki hæfur til endurvinnslu. Flugeldarusli á að skila á endurvinnslustöðvar SORPU. Það á ekki að fara í almennu ruslatunnuna. Sama gildir með ósprungna flugelda, þeir eiga að fara í spilliefnagáminn.
Hreinsun borgarlandsins er kostnaðarsöm og eru borgarbúar því eindregið hvattir til að láta ekki sitt eftir liggja og safna saman því mikla magni af flugeldaleifum sem fellur til eftir sprengingar áramótanna. Reykjavíkurborg vill minna borgarbúa og gesti á að taka flugeldaleifarnar með sér, ganga frá þeim daginn eftir og fara með til förgunar 2. janúar þegar endurvinnslustöðvar SORPU opna.
Meginatriði er að fara gætilega, passa börnin, nota hanska og hlífðargleraugu og njóta stundarinnar á öruggan hátt.