Katrín Cýrusdóttir, skólastjóri í Húsaskóla í Grafarvogi, ólst upp í Vogahverfinu og átti þar hamingjuríkt uppeldi. Eftir framhaldsskóla lærði hún nudd og vann við það í nokkur ár. Um miðjan tíunda áratuginn var Katrín á leið til Nýju Mexíkó til að læra austurlenska læknisfræði þegar hún varð óvænt barnshafandi. Austurlandafræðin viku fyrir frumburðinum og Katrín dustaði rykið af gömlum draumi og hóf nám í Kennaraháskólanum haustið 1996.
Katrín á fimm drengi, líffræðileg móðir þriggja og svo á hún tvo stjúpdrengi. Yngstir eru 17 ára tvíburar, frumburðurinn er 28 ára og svo koma stjúpsynirnir 28 og 32 ára. Á milli þeirra er góð vinátta þar sem samverustundir á Kiðafelli í Kjós tengja þá sterkum böndum. Þar á fjölskyldan gróðrarstöð þar sem þau rækta tré, runna og fjölæringa en þar má t.d. nefna 86 tegundir af reyni.
Það verður fljótt ljóst í samtali við Katrínu að hún greinir lítt á milli vinnu og einkalífs. Kennsla og kennslufræði er ástríða í lífi hennar. „Ég valdi list- og verkgreinar í Kennó vegna þess að mín framtíðarsýn var samofin kennslu í list- og verkgreinum - eins konar listasmiðjur eða fablab. Ég vildi að nemendur hefðu meira val. Eftir nokkur ár sem list- og verkgreinakennari valdi ég svo að fara að kenna á yngsta stiginu því mig langaði til að kynnast styrk og veikleikum hvers nemanda betur, fara meira á dýptina í kennslunni. Auk þess sem það fer mjög vel saman að þræða saman byrjendalæsi og list- og verkgreinar,“ segir Katrín og bætir því við að í dag hafi hún kennt á öllum stigum grunnskólans.
Katrín byrjaði að kenna í Seljaskóla en svo lá leiðin á Kjalarnes í Klébergsskóla þar sem hún varð aðstoðarskólastjóri og þaðan fór hún í Húsaskóla í Grafarvogi þar sem hún hefur verið skólastjóri í þrjú ár. Alls staðar hefur hún lagt á áherslu þemanám og teymisvinnu bæði meðal nemenda og kennara.
Húsaskóli tekur þátt í samstarfsverkefni í Grafarvogi undir heitinu Viltu tala íslensku við mig? en þar er lögð áhersla á að taka vel á móti nemendum af erlendum uppruna og hjálpa þeim að tileinka sér íslensku. Í Húsaskóla eru ekki fleiri nemendur af erlendu bergi brotnir en í öðrum skólum, heldur færri hlutfallslega . „Fjöldinn skiptir engu máli því við verðum að taka vel á móti öllum nemendum óháð uppruna og málsamfélagi,“ segir Katrín.
Grænir fingur og umhverfisvitund
Umhverfið er Katrínu hugleikið en Húsaskóli er Grænfánaskóli sem þýðir að þau huga vel að því hvernig þau geti haft áhrif á umhverfið með hegðun sinni. „Skólinn er í samvinnu við Matís og tók þátt í verkefninu krakkar kokka, sem er fræðsla um matarmenningu, nærsamfélagsneyslu, matarsóun og sjálfbærni. Áhersla er lögð á að kynna börnum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það stóð líka til að tveir bændur kæmu til okkar og kenndu okkur allt um búskap en vegna heimsfaraldursins verða þeir bara með okkur í streymi í staðinn. Það er líka gaman að segja frá því að Húsaskóli er meðal vinningshafa um titilinn Varðliðar umhverfisins í ár fyrir verkefni sem var unnið í teymisvinnu á miðstiginu um flóttafólk.“ Það er umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms standa að keppninni um varðliða umhverfisins.
Katrín fer að huga að jarðveginum um leið og fer að birta á vorin. „Að vinna í moldinni og umpotta er mín gjörhygli. Veran í sveitinni og nálægðin við gróðurinn er endurnærandi og þar hleð ég batteríin fyrir skólaumhverfið. Okkur Björn manninn minndreymir um að hætta fullu starfi fljótlega eftir sextugt og einbeita okkur að því að rækta jörðina. Það væri líka draumur að sameina trjáræktina og kennsluna og bjóða hingað litlum námshópum. Það er fátt eins gefandi og að hugsa kennsluna út fyrir skólastofuna.“
Katrín er ánægð með nýja menntastefnu að Láta draumana rætast og hún hlakkar til að taka þátt í menntastefnumóti 10. maí næstkomandi. „Þar verður Húsaskóli með magnaða kynningu,“ segir Katrín og brosir. „Hún mun koma skemmtilega á óvart.“.
#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace #menntastefnumót #látumdraumanaraetast.