Sex skólar eru nú komnir í úrslit en lokakvöld keppninnar fer fram 15. mars.
Annað undanúrslitakvöld Skrekks, hæfileikahátíðar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, fór fram í Borgarleikhúsinu í gærkvöld. Nemendur í sex grunnskólum stigu á svið; úr Sæmundarskóla, Klettaskóla, Dalskóla, Laugalækjarskóla, Háteigsskóla og Foldaskóla. Leikar fóru þannig að Laugalækjarskóli komst áfram með atriðið Í öðru ljósi og Sæmundarskóli með atriðið Leitin að liðnum tímum áfram í úrslit.
Átján grunnskólar taka þátt í Skrekk í ár en átta þeirra munu keppa til úrslita þann 15. mars. Um 400 unglingar taka þátt í hæfileiahátíðinni og semja saman skemmtiatriði sinna skóla og spreyta sig í leiklist, söng, dansi, hljóðfæraleik, búningahönnun, förðun ljósum, hljóði og annarri sviðsvinnu.
Dómnefnd í undanúrslitum skipa þau Logi Pedro Stefánsson tónlistarmaður, Sigurður Andrean Sigurgeirsson dansari, Rakel Björk Björnsdóttir leikkona, Bryndís Gunnlaugsdóttir frá Ungmennaráði Samfés og Sif Gunnarsdóttir, formaður dómnefndar.