Karímarímambó er töfraorð og þýðir gleði, hamingja, ást og friður
Skóli og frístund Menning og listir
Það var líf og fjör í Ráðhúsi Reykjavíkur þegar sex hundruð 5 - 6 ára leikskólabörn úr 30 leikskólum og forskólanemendur í Tónskóla Sigursveins stigu á stokk og sungu og léku lög eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson, rithöfund og tónlistarmann.
Yfirskrift tónleikana var Karímarímambó eftir samnefndu lagi en Aðalsteinn Ásberg segir þetta orð sem allir geti lagt fallega merkingu í af því að það sé töfraorð.
Börnin komu fram á fernum tónleikum og var tónleikunum streymt til að foreldrar og aðrir aðstandendur gætu notið þeirra. Undirleik annaðist ungmennahljómsveit Tónskólans.
Tónleikar yngstu tónlistariðkenda borgarinnar eru liður í Barnamenningarhátíð og eru þeir undir venjulegum kringumstæðum haldnir á opnunardegi hátíðarinnar í Hörpu í apríl. Þessir voru engu síðri og ríkti tónlist og gleði allan daginn í Ráðhúsinu þar sem krakkar sungu Karimarímambó.