Íslensku menntaverðlaunin 2021 komu í hlut tveggja framúrskarandi kennara og frumkvöðla í reykvísku skólasamfélagi. Þetta eru þær Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari í Klettaskóla, sem fékk verðlaunin í flokknum framúrskarandi kennari og Nanna Kristín Christiansen sem fékk verðlaunin í flokknum framúrskarandi þróunarverkefni.
Hanna Rún hefur um árabil starfað við Klettaskóla og þróað þar margvislegar leiðir til tjáskipta fyrir börn með fötlun. Hún hefur með óbilandi áhuga, þolinmæði og ástríðu fyrir starfi sínu veitt börnum með fötlun nýja möguleika til tjáskipta og verið afar ötul við að miðla þekkingu sinni og færni í nýrri tölvutækni til annarra kennara.
Nanna Kristín Christiansen fékk Íslensku menntaverðlaunin fyrir framúrskarandi þróunarverkefni en hún átti frumkvæði að því að innleiða leiðsagnarnám í reykvískum skólum og hefur m.a. ritað bók um hugmyndafræðina sem það byggir á. Leiðsagnarnám miðar að því að auka ábyrgð og hlutdeild nemenda í eigin námi og efla námsmenningu. Nanna Kristín hefur með fagmennsku, þróunarstarfi og brennandi ástríðu haft ómæld áhrif á skólastarf í Reykjavík en hún vann um árabil sem sérfræðingur hjá skóla- og frístundasviði borgarinnar.
Til hamingju Hanna Rún og Nanna Kristín!
Að Íslensku menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags um menntarannsóknir, Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samtök áhugafólks um skólaþróun og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.