Reykjavíkurborg áformar að leggja til spennandi þróunarreiti í nokkrum hverfum og hvetja þannig til vistvænnar uppbyggingar.
Í dag auglýsir borgin eftir skapandi hugmyndum að íbúðarhúsnæði framtíðarinnar þar sem grænar lausnir verða í forgrunni. Öllum er velkomið að senda inn erindi, hvort sem það er ný hugmyndafræði, ný byggingaraðferð eða blanda aðferða:
- Hugmyndafræði: leiðir sem geta auðveldað fólki að komast í gott húsnæði um leið og vistspor verkefnisins er minnkað. Til dæmis nýsköpun í byggingartækni, leigufyrirkomulagi eða fjármögnun.
- Byggingaraðferð: hugmyndir sem minnka verulega vistspor væntanlegra bygginga.
Svæði í boði
Lóðirnar sem Reykjavíkurborg leggur til eru á Veðurstofureit, við Arnarbakka, Völvufell, Suðurfell og Suðurlandsbraut, en einnig geta þeir sem senda inn hugmyndir bent á önnur áhugaverð svæði. Skipulagsvinna á þessum svæðum er mislangt á veg komin, en gert er ráð fyrir að hluti uppbyggingar á hverju svæði verði fyrir hagkvæmt húsnæði, húsnæðisfélög og/eða leiguhúsnæði.
Vistvænt íbúðarhúsnæði og minna kolefnisfótspor
Á undanförnum árum hefur Reykjavíkurborg unnið að nýjum lausnum í húsnæðismálum. Annars vegar með verkefninu um hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur þar sem verið er að þróa og byggja íbúðir á níu reitum víðsvegar um borgina. Hins vegar með þátttöku í verkefninu Reinventing cities (C40) þar sem lykilreitir í borginni eru þróaðir samkvæmt lausnum á sviði sjálfbærni, umhverfisgæða og minna kolefnisfótspors.
Í auglýsingu á vef Reykjavíkurborgar segir að húsnæðismál séu eitt mikilvægasta verkefni samtímans. „Á sama tíma og mikil þörf er fyrir íbúðarhúsnæði þá skilur byggingariðnaðurinn eftir sig stórt kolefnisfótspor. Það er því þörf á skapandi lausnum þar sem grænar lausnir framtíðarinnar eru í forgrunni. Til framtíðar viljum við sjá grænt borgarumhverfi, sem býður upp á grænan lífsstíl í samgöngum, borgarbúskap/matjurtarækt, endurvinnslu og sorplausnum, blágrænum ofanvatnslausnum, svo dæmi séu tekin“.
Lóðir boðnar að lokinni hugmyndaleit
Skilafrestur hugmynda er til 26. maí og við yfirferð hugmynda mun Reykjavíkurborg eftir atvikum óska eftir nánari kynningu hugmynda. Mögulegt er að haldið verði málþing þar sem ákveðnar lausnir verða kynntar nánar.