Vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á greiðslugetu fyrirtækja og almennings hefur borgarráð samþykkt viðauka við innheimtureglur Reykjavíkurborgar um að veita heimild til greiðsludreifingar á almennum kröfum.
Samkvæmt viðaukanum verður Momentum, greiðslu- og innheimtuþjónustu, sem sér um milliinnheimtu fyrir Reykjavíkurborg heimilt að gera sérstakt greiðslusamkomulag til allt að tíu mánaða við greiðendur almennra krafna útgefnum af Reykjavíkurborg. Tímamörk miðast við kröfur sem gefnar voru út eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst hér á landi, 1. mars 2020 eða síðar.
Dráttarvextir reiknast á kröfur á meðan samkomulaginu stendur en heimilt er að falla frá dráttarvöxtum á kröfur sem samkomulag hefur verið gert um, standi greiðandi við samkomulagið. Verði vanskil á greiðslum samkvæmt greiðslusamkomulaginu eða vegna frekari viðskipta við Reykjavíkurborg fellur samkomulagið úr gildi og innheimtuferli heldur áfram þaðan sem frá var horfið þegar greiðslusamkomulagið var gert.
Alla nýja gjaldaga þarf að greiða samhliða greiðslusamkomulaginu.