Græn skref Reykjavíkurborgar tíu ára

Umhverfi

""

Verkefnið Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar fagnar 10 ára afmæli nú í október. Mikill gangur er í verkefninu og fjöldi vinnustaða er að ljúka fjórða og síðasta skrefinu þessa dagana. Haldið var upp á afmælið í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag og fékk góður hópur viðurkenningu fyrir fjórða skrefið. 

Grænu skrefin snúast um að efla vistvænan rekstur í starfsemi borgarinnar og minnka umhverfisáhrif sveitarfélagsins í fjórum skrefum. „Þetta er ekki lítið verkefni, því Reykjavíkurborg er einn af stærstu vinnustöðum landsins og er starfsfólkið alls um 10 þúsund,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Þið getið rétt ímyndað ykkur hvaða grettistaki við getum lyft ef allar starfsstöðvar borgarinnar tileinka sér Grænu skrefin og leggja sitt að mörkum til að draga úr losun gróðurhúslofttegunda, flokka rusl, og minnka kolefnisspor okkar.“

Fjölmargar aðgerðir í sjö flokkum

Umhverfisstjórnunarkerfið Græn skref byggist á fjölmörgum aðgerðum í sjö flokkum sem hafa áhrif á umhverfið, og eru aðgerðirnar innleiddar í fjórum áföngum/skrefum. Allir vinnustaðir Reykjavíkurborgar eiga þess kost að vera þátttakendur og markmiðið er að allar starfseiningar skrái sig samkvæmt Loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025.

Hildur Sif Hreinsdóttir er verkefnisstjóri Grænna skrefa en verkefninu var fyrst ýtt úr vör af Ellý Katrínu Guðmundsdóttur sviðsstjóra hjá Reykjavíkurborg. Fyrstu verkefnisstjórarnir voru Eygerður Margrétardóttir, Salóme Hallfreðsdóttir og Hrönn Hrafnsdóttir. Verkefnið á heima hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Breiða út boðskapinn

Grænu skrefin hafa ávallt verið opin öllum og ríki og vinnustaðir á almennum markaði fengið að nota aðferðina. Græn skref sem Umhverfisstofnun hefur umsjón með voru til dæmis byggð á Grænum skrefum Reykjavíkurborgar, en Reykjavíkurborg hafði þá þróað aðferðafræðina með innblæstri frá verkefninu Green offices í Harvard háskóla í Bandaríkjunum. 146 stofnanir á vegum ríkisins taka þátt í verkefninu á 466 vinnustöðum. 

Eitt af þeim afrekum sem kerfið hefur stutt verður að teljast samgöngusamningar til að styðja vistvæna ferðamáta. Skattumhverfið studdi áður bílasamninga en nú er einnig tekið tillit til fleiri ferðamáta og eru samgöngustyrkir vegna vistvænna ferðamáta skattfrjálsir fyrir allt að 8.500 kr á mánuði.

Viðurkenningar fyrir fjórða skrefið

Grænu skrefunum er skipt í fjóra megin þætti og fá vinnustaðir viðurkenningu þegar hverju skrefi er náð. Fyrsti vinnustaðurinn sem fékk viðurkenningu var Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn sem einnig var sá fyrsti sem náði að landa fjórða skrefinu.

Á þessum tíu árum hafa 168 starfseiningar tekið þátt í grænum skrefum. Flestir hafa lokið skrefi eitt eða 34 starfseiningar. 24 hafa lokið tveimur skrefum, tvær einingar hafa lokið skrefi þrjú og 11 hafa lokið skrefi fjögur. Átta af þeim vinnustöðum fengu viðurkenningu í dag. Lærdómurinn felst í því að starfsfólk breytir venjum sínum og viðhorfi en allt sem gert er hefur eitthvað að segja því hvert skref sem tekið er fyrir umhverfið skiptir máli, hversu lítið sem það er. 

Það sem breytist á vinnustöðum er meðal annars að það dregur úr rafmagns- og húshitun, meiri flokkun og minni sóun. Innkaup, fundir og eldhús verða vistvænni, ferðavenjur heilsusamlegri og miðlun og stjórnun skilvirkari.

Græn skref í starfssemi Reykjavíkurborgar 

Græn skref - Umhverfisstofnun