Gangið vel frá úrgangi sem villtir fuglar leita í

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Reykjavíkurborg hvetur fólk og fyrirtæki til að ganga vel frá öllum ílátum undir matarleifar sem kynnu að draga að villta fugla. Einnig að bera ekki fóður í fugla á sumrin.

  • Ljósmynd/RagnarTH

Nú er sá tími genginn í garð að varptíma fugla er að ljúka og ungauppeldi margra tegunda lokið. Farfuglar halda í sínu árlega fari brátt af landi brott á suðlægari slóðir og þeir fuglar sem hér hafa vetursetu undirbúa það.

Eitt af því sem einkennir fuglafánu Reykjavíkurborgar er fjöldi strand- og sjófugla sem hér dvelja á varp- og ungatíma að sumri. Til þeirra teljast ýmsar máfategundir og má þessa dagana víða á strandsvæðum borgarinnar sjá brúngráa máfsunga í flugæfingum en varp virðist hafa gengið vel hjá mörgum sjófuglategundum í ár.

Flestar máfategundir sem verpa í og við Reykjavíkurborg reiða sig að mestu á æti úr sjó og strönd en einstaka fuglar fara einnig inn í land í ætisleit. Þar sem greitt aðgengi er að matarleifum og úrgangi verður stundum vart við máfa í ætisleit. Oft er um að ræða úrgang sem ekki er heppilegt æti fyrir fugla, m.a. máfsunga sem eru að byggja upp orku fyrir sitt fyrsta farflug.

Reykjavíkurborg vill því koma þeim tilmælum áleiðis til einstaklinga, fyrirtækja og stofnanna að ganga vel frá öllum ílátum sem geyma matarleifar og úrgang sem villtir fuglar kynnu að leita í. Einnig er mælst til að fólk leggi ekki vísvitandi út fóður fyrir fugla að sumri. Þessi tilmæli eiga sérstaklega við á svæðum eins og við Reykjavíkurtjörn (tengill) en minnka má viðveru máfa á tjörninni með því að hætta að gefa öndunum brauð.