Framtíðarborgir – framtíðarhæfni

Skóli og frístund

""

Mánudaginn 7. júní er þér boðið í þekkingarferð um heiminn. Þá verður haldinn rafrænn viðburður Future Cities – Future Skills á vegum 12 borga sem stendur í 12 tíma.

Reykjavík er ein þessara borga sem eiga í samstarfi um að tengja saman alþjóðlega sérfræðinga um menntun, menningu og atvinnumál og búa til samtal um mikilvægustu hæfniþætti menntunar til framtíðar.

Hver borg mun sjá um einn klukkutíma af dagskránni og er hægt að taka þátt í einum og einum viðburði eða sitja við í 12 tíma heimsreisu. Dagskráin hefst kl. 06:00 – 18:00 í Sydney í Ástralíu og lýkur í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Skóla- og frístundasvið leggur til framlag Reykjavíkurborgar kl. 14:00-15:00 og verður m.a. sagt frá menntastefnunni Látum draumana rætast og þróunarverkefnum undir hennar hatti.  

Borgirnar tólf munu sýna frá og fagna fjölbreyttum verkefnum sem miða að því að samþætta margvíslega hæfniþætti í menntun og menningarlífi og stuðla þannig að jafnara aðgengi til náms, auknum hreyfanleika vinnuafls og sjálfbærni.

Frestur til að skrá sig er 31. maí.

Viðburðurinn er sá þriðji í röðinni og tengist verkefninu Future cities – fusion skills sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar er þátttakandi í. Hér eru tenglar á samantekt frá viðburðinum sem haldinn var í London 2019 og rafrænan viðburð sem haldinn var 2020.