Fossvogsskóli fagnaði fimmtugsafmæli á dögunum en hátíðarhöldin voru og verða með óvenjulegu sniði vegna sóttvarna og flutninga.
Síðastliðinn föstudag var boðið til hátíðarstundar á skólalóð Fossvogsskóla og bauð skólastjóri nemendur og aðra gesti velkomna, sunginn var afmælissöngurinn, farið stuttlega yfir starf skólans og fyrir hvað hann stendur. Þá var skólanum afhentur Grænfáni Landverndar í 10. sinn, en skólinn er annar tveggja skóla á Íslandi sem fengið hafa þessa alþjóðlegu viðurkenningu tíu sinnum. Að því loknu tók Katla María Sigurbjörnsdóttir, nemandi í 6. bekk skólans til máls og þakkaði af heilum hug fyrir Grænfánann. Þá fór hún yfir það hvaða þýðingu fáninn hefur fyrir allt skólasamfélagið og hvernig unnið er samkvæmt hugmyndafræði hans í skólanum. Að lokum var foreldrum boðið að skoða nýjar kennslustofur sem komnar eru í Fossvoginn og gestir og nemendur gæddu sér á súkkuiaðiköku og ís.
Afmælishátíðin tókst í alla staði mjög vel. Nemendur gátu valið um að spila, lesa, vera í leikfimi úti, fá andlitsmálun og fl. Vegna óvenjulegra aðstæðna í skólastarfinu mun hver árgangur skólans fagna með sínu sniði yfir skólaárið, t.d. mun 7. bekkur gefa út bækling um starf skólans síðustu fimm áratugina.