Reykjavíkurborg býður foreldrum barna í 2. - 4. bekk Fossvogsskóla að velja milli þriggja valkosta fyrir tilhögun skólastarfsins fyrstu vikur skólaársins. Könnunin var send út í dag.
Skóla og frístundaráð Reykjavíkurborgar hefur í samráði við skólaráð Fossvogsskóla og fulltrúa foreldrafélagsins lagt áherslu á að nemendur í 1. - 4. bekk stundi nám í nærumhverfi sínu í vetur á meðan framkvæmdir standa yfir á skólabyggingum Fossvogsskóla.
Tíu færanlegar kennslustofur verða settar upp á lóð skólans, og hafa einingarnar verið endurgerðar með aðstoð sérfræðinga. Settar hafa verið upp lagnir á lóðinni og unnið að undirbúningi flutnings svo að uppsetning á skólastofunum geti hafist um leið og öll leyfi verða samþykkt. Skipulagsferli stendur yfir með grenndarkynningu og mun skólastarfið hjá yngri bekkjunum vera annars staðar fyrstu vikur skólaársins.
Með óskir foreldra í huga var leitað að viðeigandi húsnæði í Fossvogsdal og var metið að samstarf við íþróttafélagið Víking byði upp á bestu kostina fyrir tímabundið skólastarf í heilnæmu húsnæði í skólahverfinu. Mikil og góð tengsl hafa alla tíð verið milli íþróttafélagsins og skólans og algengt að börn þekki bygginguna og svæðið í kring mjög vel.
Kanna vilja foreldra
Á fundi skólaráðs með fulltrúum Reykjavíkurborgar í gærkvöldi kom í ljós óánægja með það fyrirkomulag að koma allri kennslu fyrir á jarðhæð Víkingsheimilisins. Til stóð að útbúa tengibyggingu sem skólastofur fyrir 2. og 3. bekk og að 4. bekkur myndi stunda nám í Berserkjasal.
Ákveðið var að leita beint til foreldra barna í 2. - 4. bekk og kanna vilja þeirra með könnun þar sem boðið er upp á þrjá kosti. Fyrsti kostur er að halda sig við staðsetninguna í Fossvogsdalnum með því að 1. bekkur stundi nám í Útlandi, húsi Frístundar á skólalóð Fossvogsskóla, en kennsla fyrir 2.-4. bekk verði á jarðhæð í Víkingsheimilinu. Annar kostur er að 1. bekkur verði í Útlandi, 2. bekkur í Berserkjasalnum á jarðhæð Víkingsheimilisins og að 3. og 4. bekkur fari með rútu í Korpuskóla. Þriðji kosturinn er að 1. bekkur verði í Útlandi, en að skólastarfið í 2.-4. bekk fari fram í nýju húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut. Börnin myndu þá fara með rútu þangað og til baka frá Fossvogsskóla.
Foreldrar hafa til hádegis á morgun til að svara könnuninni og er vonast eftir góðri þátttöku.