Félagsstarf og matarþjónusta opna á ný

Covid-19 Velferð

""

Nú getur eldra fólk í Reykjavík aftur sótt félagsstarf og borðað í mötuneytum borgarinnar. Áfram verður ítrustu sóttvarna gætt, með tveggja metra reglu og grímuskyldu.

Félagsstarf í félagsmiðstöðvum borgarinnar er að hafið að nýju. Það er í kjölfar nýrrar reglugerðar sem kveður á um 20 manna fjöldatakmarkanir í stað tíu. Á meðan á tíu manna fjöldatakmörkunum stóð lá nánast allt félagsstarf niðri og eru því liðnir meira en tveir mánuðir frá því að þátttakendur hafa geta sinnt sínum áhugamálum í félagi við aðra.

Að sögn skipuleggjenda félagsstarfsins er þörf fólks fyrir félagsskap og skemmtun orðin brýn og eftirvænting því mikil, bæði meðal þátttakenda og starfsfólks. Leikfimi undir stjórn sjúkraþjálfara, dans og jóga er á meðal þess sem hefst á næstu dögum og þá hefja hinir ýmsu hópar aftur sitt starf. Enn um sinn verða þó ákveðnar hömlur á starfinu og þess gætt að fara hægt af stað. Virða þarf tveggja metra fjarlægðarreglu og bera grímu. Það útilokar til að mynda spilamennsku, sem hefur verið vinsæl í mörgum hverfum. Þá þarf að skrá sig fyrirfram í hópastarfið en það er gert í hverri félagsmiðstöð fyrir sig. Smelltu hér til að lesa meira um félagsstarf fullorðinna og til að finna lista yfir félagsmiðstöðvar borgarinnar. Athugið að félagsstarf og matarþjónusta að Dalbraut 21–27, Furugerði 1, Langahlíð 3, Norðurbrún 1, Seljahlíð og Vitatorgi er einungis opin fyrir íbúa en ekki utanaðkomandi gesti. 

Í mötuneytum gildir einnig tveggja metra reglan og grímuskylda. Hleypt verður inn í hollum og því er mikilvægt að skrá sig fyrirfram í hádegismat. Pöntun þarf að berast fyrir klukkan 12.30 deginum áður.