Erum við öll snjöll og jöfn?

Mannréttindi Mannlíf

""

Snjöll og jöfn er nýsköpunarrannsóknarverkefni eftir Birtu Ósk Tómasdóttur, meistaranema í kynjafræði við Háskóla Íslands, sem var unnið í samstarfi við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur. Í verkefninu er litið á snjalla ferðamáta út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum og benda niðurstöður til þess að munur er á kyni og félagslegri stöðu þegar horft er á notendur snjallra ferðamáta.

Verkefnið er fyrst sinnar tegundar hér á landi. Rannsóknarverkefnið einblíndi á deilihlaupahjól, sem eru samkvæmt tölum vinsælasti snjalli ferðamátinn hérlendis í dag. Þetta eru rafknúin hlaupahjól sem hægt er að leigja með snjallsíma, frá rafhlaupahjólaleigunum Hopp, Wind, Zolo og Oss. 

Niðurstöður sýna að ungir karlar eru meirihluti þeirra sem nota deilihlaupahjól og konur eru líklegri til þess að telja deilihlaupahjól hættuleg. Þær upplifa óöryggi á þeim og upplifa að þau henti ekki þeirra líkamlegu hæfni eða heilsufari. Innflytjendur nota deilihlaupahjól umtalsvert en þeir eru síður en  innlendir á einkabíl og innflytjendur eru einnig líklegri til þess að nota strætó og fara um fótgangandi. 

Niðurstöður leiddu í ljós að núverandi regluverk og verklag í kringum deilihlaupahjól vinnur ekki markvisst að því að allir hafi jafnan aðgang að snjöllum ferðamátum. Verkefnið þykir hafa hagnýtt gildi fyrir Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög.

Vísbending er um að fatlað fólk noti deilihlaupahjól minna en ófatlað fólk en þörf er á frekari rannsóknum á því. Áhugi er í samfélagi hreyfihamlaðra fyrir að gera hlaupahjól aðgengilegri með því að bæta búnað þeirra eða aðlaga þau að þörfum fatlaðs fólks og bæta við nýjum snjöllum ferðamátum sem þjóna betur fötluðu fólki. 

Rannsóknarverkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar. Með niðurstöðum fylgir gátlisti sem inniheldur atriði sem hægt er að hafa til hliðsjónar við samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða þegar horft er til framtíðar með snjallvæna ferðamáta í huga.

Rannsóknin - Snjöll og jöfn Tengsl fjölbreyttra þarfa fólks á ferðinni og snjallra ferðamáta