Margar lóðir endurbættar með nýjum leiktækjum, hreystibrautum og endurbótum á undirlagi.
Í sumar var unnið að endurgerð lóða í þremur leikskólum borgarinnar; í Vesturborg (1. áfangi), Hálsaskógi (1. áfangi) og Mánagarði. Lóðirnar voru allar bættar með nýju undirlagi undir leiktækin og ný leiktæki sett upp.
Þá var gert átak í umbótum á leiktækjum og yfirborði á sex öðrum leikskólalóðum; við Dalskóla, Fífuborg, Klettaborg, Langholt, Lyngheima og Nes Hamra.
Í Selásskóla var lokið endurbótum á skólalóð sem hófst fyrir þremur árum og í Breiðholtsskóla var áfram unnið við endurgerð skólalóðarinnar sem hófst á árinu 2014.
Í Víkurskóla í Grafarvogi var lóðin endurbætt í ljósi þess að skólastarfið hefur breyst og var m.a. sett upp hreystibraut fyrir unglingana. Þá voru tvö leiksvæði við Engjaskóla endurbætt til að mæta þörfum yngri barna.
Endurbætur voru líka gerðar á sunnanverðri lóðinni við Melaskóla m.a. leiktækjum, vallarsvæði og gúmmiundirlagi.