Framkvæmdum er að mestu lokið í Ægisborg en elstu börnin í leikskólanum fengu um miðjan september tímabundna aðstöðu hjá íþróttafélaginu KR í Frostaskjóli.
Í liðinni viku komu 28 börn og sjö starfsmenn aftur í Ægisborg þar sem búið er að skipta um gólfefni og setja hita í öll gólf. Ráðist var í þær framkvæmdir þegar úttekt leidd í ljós raka í gólfplötunni. Börnin þökkuðu starfsfólki KR fallega fyrir sig þegar þau kvöddu Frostaskjól. Í bréfi sem þau afhentu þeim með listilega smíðuðum bikar segir m.a. "Takk fyrir að lána okkur salinn og borðin og vegginn til að hengja bréfin ... og fyrir að leyfa okkur að skoða bikarana. Þið eruð með flokka bikara. Það var gaman að vera með ykkur. KR er besti staðurinn í öllum heiminum."
Frostaskjól er í næsta nágrenni við Ægisborg og hefur lengi verið gott samstarf milli leikskólans og íþróttafélagsins KR og börnin farið þangað reglulega í hreyfingu.