Eldblómin springa út í Hallargarðinum

Umhverfi

""

Flugeldagarðurinn Eldblóm vakti mikla athygli í fyrra fyrir sérlega falleg og óvenjuleg blóm og það er gleðiefni að greina frá því að litríku eldblómin eru komin aftur á sinn stað í Hallargarðinum í Reykjavík.

Sigríður Soffía Níelsdóttir fékk hugmyndina að garðinum í gegnum vinnu sína við flugeldasýningar en það er Zuzana Vondra Krupkova, sem ræktaði blómin í garðinn. Zuzana er garðyrkjufræðingur og yfirverkstjóri hjá Reykjavíkurborg og hafði líka yfirumsjón með ræktun og útfærslu flugeldagarðsins í fyrra. Blómin í ár voru ræktuð í gróðurhúsi Landbúnaðarháskóla Íslands í Keldnaholti. Verkið Eldblóm er framleitt af Níelsdætrum í samvinnu við Torg í Biðstöðu og Reykjavíkurborg.

Tilraunastarfsemi með viðkvæm blóm

Er það áskorun að rækta öðruvísi plöntur og prófa eitthvað nýtt?

„Já það er það, við erum að rækta að mestu plöntur sem koma erlendis frá en við pöntum fræ frá Bandaríkjunum,“ segir Zuzana.

Þetta eru viðkvæm blóm eins og nokkrar tegundir af Amaranth og Celosia en einn tilgangur verkefnisins er að stunda tilraunir. „Okkur langaði að prófa nýjar tegundir og yrki. Okkur gekk vel í fyrra,“ segir hún en þá voru dalíur áberandi í Eldblómaverkefninu. „Og dalíur eru núna að verða mjög vinsælar á Íslandi,“ segir Zuzana og bendir á að úrvalið hafi verið nokkuð gott á gróðrastöðum í vor. Einhverjir hafa áreiðanlega sannfærst eftir að hafa séð hvað dalíurnar í Hallargarðinum voru fallegar.

„Fólk var hissa hversu oft og mikið dalíurnar blómstruðu,“ segir hún en dalíurnar eru ekki alveg eins áberandi í ár og í fyrra en í garðinum eru líka meðal annars sólblóm, skrautgras og valmúi.

Hallargarðurinn kjörinn fyrir verkið

„Veðrið í Reykjavík hefur líka batnað á síðustu árum og það hjálpar okkur í ræktuninni,“ segir Zuzana en trén gera kraftaverk, vindurinn er minni og það hjálpar blómunum. Hallargarðurinn er kjörinn staður fyrir þessa tilraunastarfsemi en hann hallar í suður og er lokaður af og er þar því bæði sól og skjól.

Gróðurbeðið sjálft verður með sömu lögun og í fyrra en plöntunin er með öðrum hætti. Hún er skapandi verkefni og samvinna Zuzönu og Siggu Soffíu. „Sumar plönturnar eru lágvaxnar og aðrar hávaxnar,“ segir Zuzana sem dæmi um þátt sem þarf að taka tillit til við uppröðun. Lögun blómanna sem hafa orðið fyrir valinu minna á einhvern hátt á flugelda á himninum.

Mikil vinna en gefandi

Zuzana hefur lagt mikla vinnu í ræktun eldblómanna en hún hefur mætt í gróðurhúsið allar helgar frá því í mars til að vökva og lofta út og líka fyrir og eftir vinnu. Þetta er mikil vinna en gefandi og garðyrkja er líka skapandi ferli.

„Allt ferlið er skapandi. Það er gaman að sjá plönturnar spretta, sjá þær stækka á hverjum degi, allt til þær blómstra. Það er gaman að leika sér með form gróðurbeðsins. Það þarf líka að huga um hvaða aðstæður plönturnar þurfa, hugsa um liti og hæð og hversu lengi þær blómstra. Hluti af þessu er líka að búa til plan þegar verið er að sá svo eitthvað verði blómstrandi í garðinum í allt sumar,“ segir hún.

Formleg opnun á föstudag

Það er gaman að þessu nýja aðdráttarafli í miðborginni okkar allra en garðurinn var opnaður á 17. júní. Borgarbúar og gestir eru hvattir til að heimsækja Hallargarðinn í sumar og skoða litríku eldblómin.

Formleg opnun garðsins verður á föstudag en nánari upplýsingar eru á Facebook.