„Ég er í skemmtilegu deildinni“

Mannlíf

""

Aðalheiður Santos Sveinsdóttir starfar í viðburðateymi borgarinnar og nú er hún líka rödd Reykjavíkurborgar. Aðalheiður eða Allý eins og hún er alltaf kölluð er hýr á brá og finnst gaman að gleðja aðra. Hún er ein af fólkinu okkar í borginni.

Æska fyrir austan og vestan læk

Allý er eiginlega tvöföld í roðinu þegar kemur að rótunum, en Reykvíkingur er hún í húð og hár;

„Ég bjó alla mína æsku í Fossvoginum, fyrst í Brúnalandi og svo í Byggðarenda. En ég var alltaf með annan fótinn í Vesturbænum því pabbi, Sveinn Jónsson, var formaður KR í mörg ár, sem þýddi að ég átti margar stundir bæði á Melavellinum og KR-vellinum. Þegar ég flutti að heiman valdi ég svo að búa í Vesturbænum.“  Allý segist hafa átt yndislega æsku og hún á enn marga vini úr Fossvogsskóla og Réttaholtsskóla. „Svo elska ég líka Kramhúsið. Mamma, Elísabet Guðmundsdóttir alltaf kölluð Lella, kenndi þar dansleikfimi frá upphafi og í 30 ár. Ég fylgdi henni í Kramhúsið og fór sjálf að æfa jazzballett. Svo fékk ég unglingaveikina og sneri baki við dansinum. Seinna þegar ég varð eldri fór ég í Bollywood-dansa hjá Margréti Erlu Maack. Þetta er frábær hópur og við höldum ótrauðar áfram að dansa, enda þótt við höfum gert minna sl. ár vegna Covid-19. Það þýðir bara að við mætum aftur öflugar til leiks og við erum með áform um að fást við nýja strauma í dansinum næsta haust.“

Eftir grunnskóla tóku við erilsöm ár hjá Allý. Hún fór í Menntaskólann við Sund en eirði þar engan veginn. Þá fór hún að vinna í leikskóla, varð au-pair í London og vann á Kaffibarnum. Allý vann mikið og eignaðist íbúð á Framabraut eins og hún kallar Framnesveginn.   

Landaflakk með listinni

Þegar Allý var um þrítugt var hún orðin þreytt á landi og þjóð vildi breyta til.  Hún fór að vinna við leikhúsuppfærslur í Ljubliana í Slóveníu, Ghent í Belgíu og Lyon í Frakklandi. Meðal leiksýninga sem hún ferðaðist með var Hellisbúinn í leikgerð hópsins Theatre Mogul „Á þessum ferðum eignaðist ég marga vini og sérstaklega í Ljubliana og Brussel. Ég elska að heimsækja þessa staði og njóta þess besta sem borgirnar hafa að bjóða.“

Að ferðalögum milli evrópskra leikhúsa loknum starfaði hún í Mið-Ameríku á vegum AUS, alþjóðlegra ungmennasamskipta, sem sinna hjálparstörfum út um allan heim.

„Mig langaði að læra spænsku og kynnast Mið-Ameríku svo ég gat valið milli þess að fara til Kosta Ríka eða Hondúras. Ég hafði heyrt um Kosta Ríka en ekki Hondúras svo það varð fyrir valinu og svo finnst mér Hondúras svo fallegt nafn á landi. Sjálfboðaliðarnir bjuggu flestir hjá fjölskyldum en ég vildi vera sjálfstæð og leigði mér herbergi. Ég var fyrstu vikuna að hugsa um að flytja annað því Carmen leigusalinn minn var engri lík, plássfrek, hávær og uppátækjasöm en svo fór mér að þykja vænt um hana og ég varð reynslunni ríkari við það að leigja hjá henni. Ég gat lifað ágætu lífi í Hondúras því ég átti íbúð heima, sem ég hafði leigutekjur af.“

Eignaðist nöfnu og fann ástina í Hondúras

Allý vann sjálfboðastarf með fátækum götubörnum í Tegucigalpa. „Ég var aðallega að kenna þeim almennt hreinlæti og ýmis almenn sjúkdómseinkenni. Þetta voru börn sem fengu enga menntun, bjuggu á götunni og sniffuðu lím. Þau áttu ekkert en voru samt alltaf brosandi. Ég man eftir dreng sem var með alvarlega sýkingu í hársrótinni. Ég keypti fyrir hann lyf og fór og sýndi mömmu hans hvernig ætti að nota það. Hún var barnshafandi og af þakklæti skírði hún stúlkubarnið sitt, sem fæddist litlu síðar í höfuðið á mér. Svo ég á nöfnu í Hondúras,“ segir Allý og brosir. Henni er oft hugsað til barnanna á götum Hondúras. En ferð Allýjar til Hondúras reyndist afdrifarík. Hún hafði ætlað sér að ferðast um alla álfuna eftir tæpt ár í hjálparstarfi og var komin til Níkaragúa þegar hún  komst að því að hún var barnshafandi. Barnsfaðirinn var Pablo Santos, ungur Hondúrasbúi sem Allý hafði kynnst á bar og verið í sambandi við í nokkra mánuði. Haustið 2004 fór ég heim og Pablo kom svo seint í nóvember í miklum snjóbyl. Pabbi sótti hann upp á flugvöll og á leiðinni heim komu þeir við á Bæjarins bestu og pabbi gaf honum eina með öllu. Við giftum okkur 25. nóvember og dóttir okkar fæddist svo 10. desember, sem er einmitt Alþjóðlegi mannréttindadagurinn.“ Núna hefur Pablo búið hér í 17 ár. Fjölskyldan er orðin stærri því árið 2011 eignuðust þau son. Pablo er grafískur hönnuður og unir sér vel á Íslandi. Hann saknar oft Hondúras og sér í lagi sl. ár því þau hafa ekki getað ferðast og hann hefur haft áhyggjur af sínu fólki í faraldrinum.

Gleði og gaman fyrir alla

Allý fór að vinna í kvikmyndabransanum þegar heim var komið og þótt henni fyndist það skemmtilegt var það ekki sérstaklega barnvænt starf. Það truflaði hana líka að hafa ekki klárað framhaldsnám svo hún tók stúdentspróf hjá Keili með vinnu. Allý fann að það átti vel við hana að halda utan um verkefni og viðburði og því ákvað hún að fara í nám í viðburðastjórnun í Háskólanum á Hólum.

„Það var æðislegur tími, fjarnám frá Reykjavík og svo var alltaf gaman að taka staðlotur fyrir norðan. Ég vissi strax að mig langaði ekki að halda utan um árshátíðir eða einkasamkvæmi. Mig langaði að halda utan um stóra viðburði eins og Menningarnótt í Reykjavík. Ég hafði því samband við Einar Bárðarson, sem þá stjórnaði Höfuðborgarstofu, og bað um að fá að koma í starfsnám. Það varð úr að ég fékk að spreyta mig á vinnu við Barnamenningarhátíð. Til að gera langa sögu stutta þá bauð Einar mér fastráðningu að starfsnámi loknu.“ 

Allý vinnur núna í þriggja manna teymi hjá Menningar- og ferðamálasviði borgarinnar en í teyminu starfa auk hennar Björg Jónsdóttir og Guðmundur Birgir Halldórsson. Teymið sér um Vetrarhátíð, Barnamenningarhátíð, 17. júní, Menningarnótt, tendrun Friðarsúlunnar og jólaaðventuna. „Við höfum yfirsýnina en það er líka fullt af fólki sem kemur að þessum viðburðum. Við eigum í mikilli samvinnu við hverfastöðvarnar og alls kyns hópa sem vinna að hugmyndum sínum í borgarlandinu. Ég er í skemmtilegu deildinni og umgengst fullt af góðu fólki. Mér finnst fátt skemmtilegra en að skipuleggja viðburði sem færa gleði og gaman inn í samfélagið,“ segir Allý. Hún segir frá því að síðasta sumar var þjóðhátíð ólík því sem vant er vegna COVID-19. Brugðið var á það ráð að halda litla viðburði hér og þar um borgina eins og sirkus og matarmarkað á Klambratúni, tónlistarflutning á torgum og lúðrasveitum sem poppuðu upp í görðum. Þetta vakti mikla lukku og hátíðin í ár verður með sama sniði enda enn í gildi reglur um fjöldatakmarkanir á samkomum.

„Það ættu allir að geta gert sér dagamun og þetta er tækifæri fyrir fjölskyldur að vera saman án þess að það sé einhver pressa um stað og stund,“ segir Allý. Það verður fljótt ljóst í samskiptum við Allý að hér er á ferðinni mikil gleðigjafi og því kom það engum á óvart þegar hún var beðin um að vera símarödd Reykjavíkurborgar. „Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri borgarinnar, kom til mín og bað mig um að vera rödd Reykjavíkur því henni fannst að það ætti að vera vingjarnleg og skemmtilega kona sem svaraði í símann,“ segir Allý og hlær og bætir því við að þetta hafi verið skemmtilegt verkefni og ólíkt því sem hún er venjulega að fást við.

En hvað er næst á dagskrá hjá Allý? „Það er aldrei að vita. En ég ætla að ferðast meira við tækifæri. Ég þrái að vera aftur frjáls og faðma fólk og heilsa með handabandi. Ég vona að hægt verði að bjóða öllum að safnast saman í stórum hópum á Menningarnótt í ágúst. Það er ekkert skemmtilegra en að undirbúa stórviðburð sem hvetur alla aldurshópa til að leggja leið sína í miðborgina og gleðjast saman,“ segir Allý að lokum. Eftir að eiga viðtal við Aðalheiði Santos Sveinsdóttur er ljóst að hvað sem hún tekur sér fyrir hendur þá er hún alltaf í skemmtilegu deildinni.

Myndband af raddsetningu Allýjar sem rödd Reykjavíkurborgar

#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace