Breytingar voru gerðar á grunnskólum í Grafarvogi haustið 2020. Eftir breytingarnar sækja nemendur í Staðahverfi nú skóla í Engjaskóla og Víkurskóla. Reykjavíkurborg óskaði því eftir tillögu frá Strætó til að bæta þjónustu fyrir nemendur í Staðahverfi. Samhliða var hugað að breytingum sem samræmast nýju leiðaneti.
Myndir af breytingunni fyrir og eftir (PDF)
Nýtt leiðanet er heildstætt framtíðarskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með borgarlínuleiðum og almennum leiðum. Nýtt leiðanet er nokkurs konar aðalskipulag leiðakerfisins til ársins 2034. Sjá nánar um Nýtt leiðanet.
Leið 7
Eftir breytingu mun leið 7 aka Mosaveg, beygja inn Hamravík og að Vættaborgum, beygja við Móaveg og þaðan inn á Borgaveg og enda við Egilshöll. Þessi breyting samræmist jafnframt tillögum í hinu nýja leiðaneti. Breytingin er gerð til að ná tengingu Staðahverfis við Víkurskóla.
Leið 18
Ný leið 7 ekur svipaða akstursleið og leið 18 gerir í dag í norðanverðum Grafarvogi. Því verður leið 18 breytt þannig að hún aki ekki samhliða leið 7 um norður Grafarvog heldur að Egilshöll og þaðan beint í Spöng eftir Borgaveg. Helstu ástæður fyrir breytingunni á Leið 18 er að leiðin er ein lengsta leið Strætó og hefur verið í tímaþröng undafarin misseri, fremur lítil notkun á stoppistöðvum í Borgunum, til að minnka tímaþröng og auka stundvísi, betri tækifæri til nýtingar á rafmagnsvögnum á leiðinni og skref í átt að hinu nýja leiðaneti.
Borgirnar eru að mestu allar innan 400 m radíus frá stoppistöð fyrir utan hluta af Dofraborgum sem eru við jaðar 400 m radíussins. Hluti íbúa í Borgunum mun því þurfa að ganga lengra að næstu stöð.
Leið 6
Í dag ekur leið 6 mismunandi akstursleið í átt til og frá Spöng. Í átt að Spöng ekur leið 6 um Borgaveg, Víkurveg, Mosaveg og endar í Spöng. Í átt að Hlemmi ekur leið 6 Mosaveg, inn Skólaveg og þaðan í gegnum sérstakan strætóveg og áfram Gullengi að Borgavegi. Strætóvegurinn er einungis ætlaður fyrir akstur Strætó en einkabílar hafa tekið upp á því að nýta hann til að stytta sér leið í gegnum hverfið með tilheyrandi hættu fyrir gangandi vegfarendur. Leið 6 verður breytt þannig að hún aki eins í báðar áttir sem einfaldar kerfið fyrir farþega og bætir þjónustu við Egilshöll þar sem farþegar komast nú fram og til baka á milli Spangar og Egilshallar. Eftir breytingu mun leið 6 aka fyrst að Spöng og þaðan áfram Mosaveg, beygja við Víkurveg og enda við Egilshöll. Með þessum breytingum mun leiðin jafnframt byrja að aka sömu akstursleið og gert er ráð fyrir að borgarlínuleið B muni aka í Grafarvogi í fyrsta áfanga Borgarlínunnar. Þessi breyting er því í samræmi við nýtt leiðanet og skref í átt að fyrsta áfanga Borgarlínunnar.
Skoða hverja leið á korti
Nefna má að leiðir 24 og 31 haldast óbreyttar.
Breytingarnar á leiðum 7, 18 og 6 samræmast nýju leiðaneti og voru samþykktar af stjórn Strætó 6. nóvember 2020 og munu taka gildi 15. ágúst 2021. Hægt er að ýta á hverja leið fyrir sig til að skoða hana nánar. Einnig er til kynning á breytingunum sem útskýrir þær aðeins nánar, sjá hér.
Sjá kortið hér Grafarvogur breytingar.
Fyrir breytingu:
Eftir breytingu: