Alþingi samþykkti nýverið breytingu á lögum um fjöleignahús nr. 26/1994 sem greiðir fyrir þinglýsingu lóðarleigusamninga við endurnýjun þeirra. Með breytingunni er stjórnum húsfélaga í fjöleignahúsum heimilað að undirrita lóðarleigusamninga fyrir hönd eigenda þegar eignarhlutar á lóð eru sex eða fleiri. Þegar eignarhlutar á lóð eru færri en sex er nægilegt að meirihluti eigenda undirriti samninginn.
Þetta á þó einungis við þegar ekki er verið að gera efnislega breytingu á eldri lóðarleigusamningi. Þegar lóðarleigusamningi er breytt frá því sem segir í eldri lóðarleigusamningi, til dæmis með því að uppfæra stærð lóðar á mæliblaði, er enn gerð krafa um undirritun allra þinglýstra eigenda.
Fyrir þessa breytingu var gerð skýlaus krafa um að allir þinglýstir eigendur í fjöleignahúsi undirrituðu skjöl vegna endurnýjunar lóðarleigusamninga. Sú krafa hefur reglulega valdið töfum á þinglýsingu lóðarleigusamninga – einkum þegar margir eigendur eru á sömu lóð – vegna þess að það getur reynst tímafrekt að fá alla eigendur til að undirrita samninga.
Stjórnir húsfélaga eru hvattar til að kanna hvort að lóðarleigusamningur fyrir þeirra hús sé útrunninn eða tilbúinn til undirritunar hjá þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14 og þá hvort að stjórnin hafi heimild til að undirrita samninginn fyrir sitt húsfélag.
Sjá nánar í 12. gr. frumvarps um breytingu á lögunum hér.