Borgarstjóri með grein í The Lancet

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Eitt virtasta læknatímarit heims, The Lancet, hefur birt stuttan pistil eftir Dag B. Eggertsson borgarstjóra þar sem hann fjallar um Græna plan Reykjavíkurborgar og loftslagsstefnu í tengslum við lýðheilsu.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sem er menntaður læknir,  hefur aldrei farið leynt með áhuga sinn á lýðheilsu og þau áhrif sem gott skipulag í borginni og öflugir innviðir geta haft á tækifæri almennings til heilsueflingar og heilbrigðs lífernis. Hann hefur í gegnum tíðina haldið marga fyrirlestra um þetta málefni. Borgarstjóri var beðinn um að skrifa stutta grein um lýðheilsu og loftslagsmál í læknatímaritið Lancet sem nú hefur verið gerð aðgengileg á vef tímaritsins. Yfirskrift greinarinnar er Græna plan Reykjavíkurborgar: um kolefnishlutlausa borg og lýðheilsu.

Borgarstjóri rekur í greininni hvernig Reykjavík geti stolt státað af einu minnsta kolefnisspori þróaðra borga en það sé vegna þess að borgin búi yfir endurnýjanlegum orkuauðlindum, jarðvarma og vatnsorku. Losun gróðurhúsalofttegunda á höfuðborgarsvæðinu er hins vegar að mestu tilkomin vegna samgangna og því sé áskorunin sú að draga sem mest úr losun vegna þeirra. Borgin hefur sett sér það markmið í loftslagsstefnu sinni að verða kolefnishlutlaus árið 2040 og því sé það verkefni næsta áratugs að byggja upp innviði fyrir fleiri samgöngumáta en einkabílinn en styðja jafnframt við orkuskipti í samgöngum og breyta samgönguvenjum almennings.

Borgarstjóri segir að með góðu skipulagi borgarinnar megi ekki einungis draga úr losun heldur einnig bæta heilsu og lífsgæði almennings. Traustir innviðir þar sem fólk hafi góða möguleika til þess að nýta sér fjölbreytta samgöngumáta og geti hjólað eða gengið í vinnuna eða notfært sér áreiðanlegar og hraðar almenningssamgöngur séu lykillinn að bættri lýðheilsu og betra ástandi í loftslagsmálum.  Þannig sé t.d. mikilvægt að fólk geti búið nálægt vinnustað sínum, skólar séu í nærumhverfinu og útivistarsvæði séu í nánasta umhverfi allra í borginni.

Græna planið sem sé áætlun Reykjavíkurborgar til öflugrar viðspyrnu eftir efnahagslegar þrengingar COVID-19 leggi áherslu á þrjár sjálfbærar lausnir: efnahagslega, umhverfislega og félagslega. Borgin sé að leggja út í grænar fjárfestingar næsta áratuginn þar sem enginn verði skilinn eftir í félagslegu tómarúmi. Þá hafi loftslagsstefna borgarinnar verið endurnýjuð með það að markmiði að tryggja orkuskipti, visthæfa hönnun bygginga svo og föngun kolefnis í gegnum aðferðir eins og niðurdælingu kolefnis, endurheimt votlendis og skógrækt. Borgarstjóri segist vera fullviss um að þessi stefna muni skila betri lýðheilsu, ekki aðeins fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins heldur íbúa alls staðar í heiminum.

Þess má geta að fundur borgarstjóra og forsvarsmanna B-hluta fyrirtækja borgarinnar um fjárfestingar og græna planið hefst klukkan 9 í fyrramálið og verður í beinu streymi á vef Reykjavíkurborgar.

Pistill borgarstjóra í The Lancet