Rithöfundurinn Valur Gunnarsson var nýverið valinn til að taka þátt í fjar-gestavinnustofu hjá The National Centre For Writing í Norwich, sem er líkt og Reykjavík ein af Bókmenntaborgum UNESCO.
Þetta er í þriðja sinn sem slík vinnustofa er haldin en Norwich borg bauð nú höfundum frá öðrum Bókmenntaborgum að sækja um þátttöku og var Valur einn fimm höfunda sem hrepptu hnossið.
Valur Gunnarsson vakti fyrst athygli á ritvellinum fyrir ljóðabók sína A Fool for Believing (Watermark, 2004) sem hann hlaut nýliðaverðlaun fyrir á ljóðaráðstefnu í Washington DC en hefur síðan getið sér gott orð fyrir skáldsögur á borð við Örninn og fálkinn (Forlagið, 2017) og Konungur norðursins (Mál og menning, 2007), ásamt því að sinna öðrum ritstörfum.
Gestavinnustofan varir í mánuð og munu þátttakendur, sem eru allt í bland rithöfundar og þýðendur, kanna tengslin milli Norwich og eigin Bókmenntaborga UNESCO en auk Vals taka rithöfundar frá Írlandi, Nýja Sjálandi, Póllandi og Skotlandi þátt í verkefninu.
Valur segir það sanna ánægju að geta snúið aftur til Norwich, þótt það sé í stafrænu formi, en hann var þar í doktorsnámi við University of East Anglia sem er talinn hafa einhverja bestu ritlistardeild heims. Meðal höfunda sem hafa útskrifast þaðan eru Ian McEwan sem er fyrsti handhafi bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness og Nóbelsverðlaunahafinn Kazuo Ishiguro.
Valur tekur þátt í hlaðvarpi og vefvarpi í gestavinnustofunni auk þess að kynna bókmenntir sem tengjast Reykjavík, allt frá því fyrsta raunverulega Reykjavíkursagan var skrifuð af Elíasi Mar, fram til okkar daga. Hann segir WC Sebald, einn kunnasta höfund Norwich, hafa skrifað merka bók um hugleiðingar sínar þegar hann gekk meðfram ströndum Norfolk og Valur hefur í hyggju að ganga í hans spor – nema meðfram sjávarsíðum Reykjavíkur – og skrifa eitthvað álíka þar sem hann veltir vöngum yfir bókmenntum borgarinnar. Þá vonar hann að hann geti gagnast Íslendingum sem hyggja á nám í Norwich, sem og breskum höfundum sem vilja kynna sér Reykjavík.
Aðrir höfundar í vinnustofunni eru Liz Breslin frá Dunedin, Lynn Buckle frá Dublin, Vahni Capildeo frá Edinborg og Marcin Wilk frá Kraká. Allar eru borgirnar Bókmenntaborgir UNESCO og þar með hluti af stærra samstarfsneti Skapandi borga UNESCO.