Barnamenningarhátíð sett með ákalli til náttúrunnar

Skóli og frístund

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti Barnamenningarhátíð í Listasafni Reykjavíkur í morgun um leið og stór sýning á barnalist ar opnuð undir fyrirsögninni Listrænt ákall til náttúrunnar. 

Hópur barna úr leikskólanum Sæborg var borgarstjóra til aðstoðar við opnun Barnamenningarhátíðar en þau eiga ásamt mörg hundruð annarra barna í fimmtán leik- og grunnskólum verk á myndlistarsýningunni í Listasafninu. 

Sýningin Listrænt ákall til náttúrunnar er afrakstur af samstarfi barna við listamenn, vísindafólk og kennara og hefur verið sett upp í porti og fjölnotasal í Hafnarhúsinu og á Kjarvalsstöðum. Þá er sýningin liður í því að innleiða menntastefnu borgarinnar Látum draumana rætast, en sköpun er einmitt einn af grunnþáttunn hennar. Frítt er inn á sýninguna sem sett hefur verið upp í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum. Þá er einnig sýning á barnalist í Borgarbókasafni Spönginni. Frítt er fyrir fullorðna í fylgd með börnum. 

Barnamenningarhátíð verður lágstemmd þetta vorið og í samræmi við allar samkomutakmarkanir vegna Covid-19.

Hátíðartímabilið hefur verið lengt og mun hátíðin standa yfir til 14. júní. Með því móti gefst börnum og listafólki tækifæri til að sýna og framkvæma verkefni sem verið hafa í vinnslu í vetur.

Dagskrá hátíðarinnar má skoða barnamenningarhatid.is.

Gleðilega Barnamenningarhátíð!