Vorið er hátíð barna og barnamenningar í borginni og svo verður sem endranær. Hins vegar verður Barnamenningarhátíð með breyttu sniði vegna Covid-19 líkt og gerðist í fyrra.
Í stað þess að börn flykkist inn í Hörpu á opnunarhátíð eins og venjan hefur verið verður í samstarfi við RÚV boðið upp á metnaðarfulla sjónvarpsdagskrá þegar hátíðin verður sett undir fyrirsögninni; Barnamenningarhátíð – heim til þín. Þátturinn verður sýndur laugardagskvöldið 24. apríl og verður dagskrá í anda opnunarviðburðar Barnamenningarhátíðar. Þannig verður lag hátíðarinnar frumflutt í þættinum, en það er samið í samstarfi við nemendur í 4. bekk grunnskólanna og tónlistarkonunnar Bríetar.
Barnamenningarhátíð hefst þann 20. apríl en verður lágstemmd og í samræmi við allar samkomutakmarkanir. Hægt verður að fylgjast með dagskrá á heimsíðu hátíðarinnar www.barnamenningarhatid.is.