Barnamenningarhátíð er ein skemmtilegasta menningarhátíð í heimi og verður sett á morgun, þriðjudaginn 20. apríl kl. 10.30 með opnun myndlistarsýningar í Listasafni Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun opna sýninguna ásamt fámennum hópi leikskólabarna. Sýningin er afrakstur samstarfs vísindafólks, listafólks, kennara og barna í grunn– og leikskólum borgarinnar. Í ár verður hátíðin lágstemmd og í samræmi við allar samkomutakmarkanir vegna Covid-19.
Hátíðartímabilið hefur verið lengt og mun hátíðin standa yfir til 14. júní nk. Með því móti gefst börnum og listafólki tækifæri til að sýna og framkvæma verkefni sem verið hafa í vinnslu í vetur.
Í stað þess að heilum árgöngum barna sé boðið í Hörpu á opnunarhátíð eins og venjan hefur verið, verður í samstarfi við RÚV boðið upp á metnaðarfulla sjónvarpsdagskrá; Barnamenningarhátíð – heim til þín. Þátturinn verður sýndur laugardagskvöldið 24. apríl kl. 19.45 og verður dagskráin í anda opnunarviðburðar Barnamenningarhátíðar. Lag hátíðarinnar verður svo flutt í þættinum, en það er samið af nemendum í 4. bekk grunnskóla í samstarfi við tónlistarkonuna Bríeti.
Þrátt fyrir skrítna tíma mun barnamenningin blómstra og færa líf og lit í borgina. Boðið verður upp á skemmtilega dagskrá fyrir alla aldurshópa í flestum menningarhúsum borgarinnar fram eftir vori. Sem dæmi má nefna:
- Sýningar á verkum 800 barna í 15 leik- og grunnskólum á vegum verkefnisins LÁN – listrænt ákall til náttúrunnar opna þriðjudaginn 20. apríl í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi og Kjarvalsstöðum og Borgarbókasafni Spönginni.
- Baltnesk barnamenningarhátíð hefst um helgina í Norræna húsinu.
- Þjóðminjasafn Íslands setur upp sýningu á drekum sem leikskólanemar búa til í sérstakri drekasmiðju í safninu í tilefni af Barnamenningarhátíð.
- Lag hátíðarinnar verður frumflutt í útvarpi miðvikudaginn 21. apríl.
- Ævintýrahöll Barnamenningar fer fram á Árbæjarsafni í júní
Dagskrá hátíðarinnar ná nálgast á barnamenningarhatid.is