Átta grunnskólar kepptu á síðasta undanúrslitakvöldinu í Skrekknum í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi en lokakvöld hátíðarinnar fer fram mánudaginn 8. nóvember í beinni útsendingu á RÚV.
Skólarnir átta sem kepptu til úrslita í gærkvöldi voru Hólabrekkuskóli, Klettaskóli, Víkurskóli, Árbæjarskóli, Austurbæjarskóli, Rimaskóli, Ingunnarskóli og Hlíðaskóli. Svo fóru leikar að Austurbæjarskóli komst áfram með sviðsverkið Í skugga ofbeldis og Árbæjarskóli með verkið Annað viðhorf . Þeir tveir skólar verða með í átta skóla úrslitum á mánudaginn. Alls stigu 220 reykvískir unglingar á svið í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi og sýndu ýmsar listir, söng, leik, dans, búningahönnun og fleira. Til hamingju öll!