Átak hafið til að efla stafræna grósku í skólastarfi

Skóli og frístund

Það var almenn ánægja með tölvukostinn í Víkurskóla.
Dagur B. Eggertsson fylgist með nemendum prófa tölvukostinn

Þessa dagana eru nemendur á unglingastigi í grunnskólum Reykjavíkur að taka við nýju námstæki, Chromebook eða spjaldtölvu, sem þeir munu hafa til umráða í sínu námi. Í dag afhenti Dagur B. Eggertsson nemendum í 9. bekk Víkurskóla í Grafarvogi Chromebook tölvur til afnota.

Þetta er liður í átaksverkefni undir yfirskriftinni Stafræn gróska, verkefni sem byggir á markmiðum í menntastefnu Reykjavíkur, Græna planinu svokallaða og stefnu um notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi. 

Stutt við faglegt starf

Stafræn gróska snýst um að auka til muna við tækja- og hugbúnað í grunnskólunum svo og ráðgjöf til starfsfólks og styðja þar með við framþróun í skólastarfi.  Fyrir áramót munu nemendur á unglingastigi fá sitt eigið námstæki og á árinu 2023 ættu nemendur í 5.-7. bekk einnig hafa fengið námstæki.

Samhliða auknum búnaði fyrir starfsfólk og nemendur miðar Stafræn gróska að því að byggja upp kennsluráðgjöf og starfsþróun. Stöðugildum kennsluráðgjafa hefur verið fjölgað og boðið verður upp á margvíslega símenntun og fræðslu til að starfsfólk skólanna geti nýtt sem best upplýsingatækni í sínu starfi. 

Jöfn aðstaða til náms

Í menntastefnu Reykjavíkur er lögð áhersla á að nýta stafræna tækni til að auðga menntun og veita börnum fjölbreytt tækifæri til sköpunar og tjáningar. Þar segir m.a. að örar samfélagsbreytingar, miklar tækniframfarir og síbreytileg heimsmynd kalli á hraðari innleiðingu stafrænnar tækni í skóla- og frístundastarfi.  

Með Stafrænni grósku er leitast við að jafna aðstöðu barna á mið- og unglingastigi til náms með aðgangi að námstæki sem undirbýr þau fyrir viðfangsefni framtíðarinnar. Slíkt tæki getur stutt við námið á margvíslegan hátt, stuðlað að virkri þekkingarleit og opnað möguleika á enn fjölbreyttari verkefnavinnu og skapandi skilum. 

Áætlaður kostnaður við Stafræna grósku nemur röskum 700 milljónum króna og nær yfir þrjú fjárhagsár.