Greining á launum starfsfólks Reykjavíkurborgar sýnir að konur voru með 0,9% lægri heildarlaun en karlar árið 2020 þegar litið er á laun alls starfsfólks borgarinnar óháð starfshlutfalli og að teknu tilliti til kyns, aldurs, menntunar, fagaldurs, yfirvinnu og starfaflokka.
Þetta kemur fram í greiningu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á kynbundnum launamun hjá borginni sem byggist á launagögnum októbermánaðar 2020. Gögnin sýna að borgin hefur náð eftirtektarverðum árangri í baráttunni gegn kynbundnum launamun.
Leiðréttur kynbundinn launamunur hjá Reykjavíkurborg hefur, samhliða markvissum aðgerðum í aldarfjórðung dregist verulega saman eða frá því að vera 21,1% niður í það að vera 0,9% eins og sjá má á mynd. Reykjavíkurborg hefur í gegnum árin lagt mikla áherslu á jafnrétti og verið í fararbroddi á því sviði.
Frá árinu 1995 hefur verið unnið að því að útrýma kynbundnum launamun og fékk borgin, stærst allra vinnuveitanda, jafnlaunavottun í desember 2019. Borgin hefur notað margar aðgerðir til að ná markmiðum sínum og ljóst er að innleiðing starfsmatskerfis fyrir um 20 árum hefur reynst vel á þeirri vegferð. Frá árinu 2013 hafa mörg skref verið stigin að jöfnum launum og má í því samhengi nefna fræðsluátak fyrir stjórnendur, reglulegar úttektir á kynbundnum launamun, endurskoðun starfsmatskerfisins og uppsögn aksturssamninga starfsfólks. Með jafnlaunakerfi árið 2019 tók borgin svo í notkun öflugt verkfæri sem greiddi leiðina enn frekar að markmiði um jöfn laun. Stefnt er að því að þegar laun fyrir árið 2021 verði skoðuð hafi launajöfnuði verið náð.
Jafnlaunastaðallinn gerir kröfu um að framkvæmd sé launagreining á launum alls starfsfólks óháð starfshlutfalli en eldri greiningar sýna launamun starfsfólks í 70% starfshlutfalli eða meira.