Miðvikudaginn 6. október verður Forvarnardagurinn haldinn í grunn- og framhaldsskólum , en hann er haldinn á hverju hausti þar sem sjónum er sérstaklega beint að ungmennum í 9. -10. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Í ár verður sjónum sérstaklega beint að svefni og andlegri líðan ungmenna.
Niðurstöður Rannsóknar og greiningar frá 2021 sýna að 44% ungmenna í 9. bekk og 53% ungmenna í 10. bekk fá ekki nægan nætursvefn. Þá sýna rannsóknir að þeir sem drekka fleiri orkudrykki eru líklegri en aðrir til að sofa minna. Í efstu bekkjum grunnskóla sýna niðurstöður að 74% þeirra sem drekka tvo eða fleiri orkudrykki á dag fá ekki nægan nætursvefn.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Alma Möller andlæknir og aðrir samstarfsaðilar að Forvarnardegi ftóku þátt í fréttamannafundi í Dalskóla í morgun til að vekja athygli á áherslum Forvarnardagsins. Þá ræða nemendur í grunnskólum um hugmyndir sínar um íþrótta- og tómstundastarf, samveru með fjölskyldunni og það að leyfa heilanum að þroskast án neikvæðra áhrifa en þetta eru meðal verndandi þátta fyrir áhættuhegðun.
Nemendur fá kynningu frá kennurum skólans og fara í hópavinnu þar sem þau skrá hugmyndir sínar. Skólarnir sem skráðir eru til þátttöku setja upp dagskrá í sínum skóla og fá afhent kennsluefni til að vinna með í þeim tilgangi.
Nemendum býðst að taka þátt í leik sem verður á vefsíðu Forvarnardagsins www.forvarnardagur.is og dregið verður úr réttum svörum þann 21. október nk. Verðlaunin verða afhent af forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.