Margir kannast eflaust við Inga Þór Jónsson vegna íþróttaafreka hans og baráttu á sviði mannréttinda. Í dag er hann verkefnastjóri viðburða og markaðs hjá Fjölskyldugarðinum. Hann vissi hvað hann vildi og segja má að hann hafi búið starfið sitt til sjálfur. Hann byrjar alla vinnudaga á að sækja orku til dýranna í Húsdýragarðinum og ætlar að breyta Fjölskyldugarðinum í heilsársstað.
„Ég byrjaði í Fjölskyldugarðinum sem næturvörður. Ég var atvinnulaus og þegar ég sá starfið auglýst hringdi ég í yfirmann garðsins og sagði: „Heyrðu, ég ætla að fá þetta!“. Ég byrjaði þá um kvöldið en hafði aldrei komið nálægt dýrum áður. Viku eftir að ég byrjaði tók ég á móti mínum fyrsta kálfi með dýrahirði. Ég þurfti að fara í háa hanska, fara alla leið inn og draga hann út. Viku seinna tók ég svo einn á móti kálfi,“ segir Ingi brosandi. „Mér var bara hent í djúpu laugina og í þessu starfi hef ég lært að elska þessi dýr. Það er ekkert betra í heiminum. Ég byrja alltaf vinnudaginn á að hjóla inn Húsdýragarðsmegin, heimsækja dýrin og fá orku frá þeim. Svo fer ég á skrifstofuna mína. Þetta er dásamleg byrjun á deginum.“
Talandi um djúpu laugina. Ingi á að baki glæstan feril, fyrst sem sundmaður sem keppti meðal annars á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1984 og síðar sem baráttumaður fyrir mannréttindum. Ingi er samkynhneigður og hefur hann verið óþreytandi að tala fyrir bættri stöðu samkynhneigðra í íþróttaheiminum. Þegar hann bjó í Bretlandi vann hann á vegum bresku ríkisstjórnarinnar að æskulýðsstarfi og baráttu gegn fordómum auk þess að starfa með breska fótboltasambandinu að átaki gegn hómófóbíu. Þá setti hann á laggirnar hópinn Out Proud Olympians Family, sem ætlaður er samkynhneigðu afreksíþróttafólki. Ingi sneri snemma baki við sundinu enda leið honum ekki vel innan íþróttahreyfingarinnar, en baráttan er ennþá hluti af lífi hans. „Síðast hélt ég ræðu á RIG (Reykjavík International Games) um stöðu samkynhneigðra í íþróttum á Íslandi, sem er mjög slæm. Ég segi alltaf já þegar ég er beðinn að tala um þessi mál. Það má aldrei hætta eða gefast upp, það þarf stöðugt að minna á hlutina.“
Ætlaði að verða ævintýramaður
Leiklistardraumur blundaði í Inga, sem lærði leiklist í London og vann við fagið í Bretlandi. Leikarastarfið leiddi hann svo út í viðburðastjórnun og var hann framkvæmdastjóri norrænnar listahátíðar í Bretlandi í mörg ár. „Sem barn ætlaði ég aldrei að verða neitt ákveðið, bara ævintýramaður,“ segir Ingi og líklega er óhætt að halda því fram að honum hafi tekist það.
Ingi var í næturvarðarstarfinu í eitt sumar. „Ég fór að spá í framhaldið og hafði nægan tíma á nóttunni til að hugsa um hvað ég vildi gera við lífið. Mér leið mjög vel hér og sá ýmis tækifæri. Svo ég bara ákvað að ég ætlaði ekki að fara neitt,“ segir Ingi skellihlæjandi.
Ingi bjó að bakgrunni úr viðburðaheiminum og bjó til markaðs- og hugmyndaplan um að gera Fjölskyldugarðinn að heilsársstað. Hann brennur augljóslega fyrir starfinu og er fullur af hugmyndum. „Við erum í góðu sambandi við skipuleggjendur Hinsegin daga og stefnum á að taka þátt í þeim. Svo stendur til að endurvekja Hrekkjavökudagskrá á næsta ári. Við ætlum líka að efla ýmis samvinnuverkefni, bæði innlend og erlend og gera garðinn alþjóðlegri. Tækifærin eru endalaus og þetta er dásamlegur staður eins og allir vita sem hafa komið hingað. Svo erum við með rosalega skemmtilegar pælingar, sem ég verð því miður að bíða með að segja frá,“ segir Ingi leyndardómsfullur.
Ljósum skrýdd vin í vetrarmyrkrinu
Stóra verkefnið í augnablikinu snýst þó um jólin. „Við ætlum að opna Fjölskyldugarðinn sem jólagarð, fyrsta desember. Garðurinn verður lýstur mjög fallega upp og þetta mun standa alla aðventuna og fram yfir Vetrarhátíð, í febrúar. Ég var í stjórn Vetrarhátíðar í gamla daga og er algjör ljósafíkill. Það er líka hvergi eins mikilvægt og á Íslandi að hafa ljós,“ segir Ingi og ef marka má lýsingar hans á jólagarðinum sem er í undirbúningi, ætti enginn að láta heimsókn þangað framhjá sér fara. „Þetta er sem sagt fyrsti hlutinn af þessum heilsárshugmyndum mínum. Undirbúningurinn hefur verið umfangsmikill og það verður heilmikil vinna að setja þetta upp. Hér í garðinum vinna algjörir snillingar sem sjá um tækin og fleira og þeir munu setja upp ljósin. Margir hafa aldrei upplifað Fjölskyldugarðinn í myrkri en tækin eru óskaplega falleg þá og þau setja sterkan svip á þessa ljósahátíð okkar. Svo verða jólaglögg og möndlur, piparkökur og kakó. Þetta verður dásamlegt. Í kringum jólin er oft dálítið stress og læti en við ætlum að búa til smá paradís þar sem fólk getur notið sín. Stressið verður í hundrað og einum en hér ætlum við bara að hafa notalegt,“ bætir hann við og glottir. „Við erum líka með jólakött og hann er svakalegur, en fólk verður bara að upplifa það sjálft. Það er alltaf verið að gera köttinn verri og verri, hann er eiginlega ekki fyrir lítil börn,“ segir Ingi og hlær. Ef fólk er með hugmyndir eða vill taka þátt í jólagarðinum með viðburðahaldi eða öðru, má hafa samband við Inga með tölvupósti á ingi.thor.jonsson@reykjavik.is.
Starfið í Fjölskyldugarðinum er ekki það fyrsta sem Ingi sinnir hjá borginni, því hann var viðburðastjóri í Ráðhúsinu og vann á skrifstofu borgarstjóra í tíð Jóns Gnarr, sem hann segir hafa verið skemmtilegan tíma. „Það besta við starfið mitt í dag er að ég veit aldrei hvað bíður mín. Við erum með frábæran yfirmann sem er mjög víðsýnn og til í allt. Samstarfsfólkið er fyrsta flokks og það er mikil gleði hérna. Enda fer enginn. Ef þú byrjar að vinna í Fjölskyldugarðinum þá ferðu ekkert annað,“ bætir hann hlæjandi við.
Spennandi að reyna að skilja borgina betur
Spurður um hver Ingi sé utan vinnunnar í dag, kemur hik á hann. „Ég hef breyst mikið. Ég var alltaf á fullu úti um allt en núna finnst mér best að vera heima hjá mér. Ég er best geymdur þar,“ segir Ingi, en hann býr í Þingholtunum. „Mér líður óskaplega vel í miðborginni og lifi rólegu lífi þar. Ég á fáa og góða vini og lærði á COVID-tímanum að mér finnst ég miklu skemmtilegri en allir aðrir. Ég er ofsalega sáttur með sjálfum mér og held að margir tengi við þetta. Fólk hefur lært betur að vera með sjálfu sér.“
Ingi ákvað árið 2008 að eiga aldrei aftur bíl. „Mitt áhugamál númer eitt, tvö og þrjú er að hjóla um Reykjavík. Ég hugsa að ég yrði mjög góður leigubílstjóri, þekki allar bakleiðir og ég er alltaf að reyna að skilja borgina betur. Mér finnst það spennandi,“ segir hann.
Spurður um hvort hann nái að samtvinna áhugamál og starfið svarar hann játandi. Hann hjólar til að mynda alltaf í vinnuna. „Svo eru það ljósin. Ég kem áhugamálunum mínum alltaf að. Ég hef tækifæri til að sinna því sem ég brenn fyrir, ég treð því alltaf inn,“segir hann kátur. „Mér finnst ég hafa fundið réttan stað í lífinu hér.“
En skyldi hann eiga sér framtíðarplön- eða drauma? „Nei, það er bara að vera í núinu og njóta þess. Ég lifi þannig í dag og finnst það æðislegt!“
#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace