8000 Reykvíkingar hafa kosið á Hverfidmitt.is

Mannlíf Íþróttir og útivist

""

Nú hafa liðlega 8000 Reykvíkingar kosið á Hverfidmitt.is eftir fyrstu helgina en kosningin hófst þann 30. september síðastliðinn.

Oft eru örfá atkvæði sem ráða úrslitum um hvaða hugmyndir eru kosnar og því skiptir hvert atkvæði máli. Þú velur eitt hverfi og kýst þínar uppáhalds hugmyndir. Það er einfalt að kjósa og það er í lagi að kjósa oft, en það er síðasta kosningin sem gildir

Í þessu súluriti má sjá að besta þátttakan er í Árbæ og Norðlingaholti en þar hafa 11,3% íbúa kosið. Í öðru sæti eru íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal með 9,9% þátttöku og fast á hæla þeirra fylgja íbúar í Laugardal með 8,8% þátttöku. Í súluritinu má sjá hlutfall íbúa sem hafa kosið í hverju hverfi.

Fjármagnið í framkvæmdapottinum er alls 850 milljónir og var kallað eftir stærri hugmyndum frá borgarbúum. Hugmyndahöfundar létu ekki sitt eftir liggja og í öllum hverfum Reykjavíkur er að finna stórar, flottar og fjölbreyttar hugmyndir fyrir alla aldurshópa sem hægt er að kjósa um.

Borgarbúar eru hvattir til að kjósa á Hverfidmitt.is og auðkenna sig með rafrænum skilríkjum í lokin til að skila atkvæðinu. Kosning er staðfest með Íslykli eða Rafrænum skilríkjum. 

Kosning er opin til hádegis 14. október – taktu þátt í að gera hverfið þitt enn betra!